145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:24]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu.

Ég vil rétt aðeins koma inn á það sem hún nefndi hér áðan varðandi hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur af því að talað var um að dvelja í fortíðinni. Ef við horfum til 1. janúar 2016 þá hefði það einmitt verið fyrsti dagurinn sem afborgunin átti að fara fram í erlendum gjaldeyri af Icesave-skuldinni hefði hún verið samþykkt hér af fyrri ríkisstjórn. Við skulum halda því til haga.

Það sem mig langar að koma hér inn á eru þau orð sem hv. þingmaður gerði að sínum, að skerða ekki lífskjör almennings, að það væri lykilatriðið. Það er einmitt lykilatriðið í þeim aðgerðum sem þessi ríkisstjórn hefur kynnt með stöðugleikaskattinum og þessum tveimur leiðum, að skerða ekki lífskjör almennings. Það var númer eitt, tvö og þrjú.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann af því að það var talað um bankana hér áðan að Íslandsbanki væri að lenda í höndum ríkissjóðs: Var gerð einhver greiðslujafnaðargreining á sínum tíma þegar ráðist var í að afhenda (Forseti hringir.) kröfuhöfum þessa banka? Var gerð einhver áætlun þá líkt og gert er núna og rannsakað hvaða áhrif það hefði á lífskjör (Forseti hringir.) almennings, hvaða áhrif það hefði á greiðslujöfnun þjóðarbúsins o.s.frv.? Það er akkúrat lykilatriði í þessari umræðu (Forseti hringir.) að þetta hefur ekki áhrif á lífskjör almennings og það er það sem þessi ríkisstjórn leggur höfuðáherslu á.