145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:27]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og hv. þingmaður erum svo sannarlega sammála um að það er mikilvægt að greiðslujafnaðar sé gætt og við skerðum ekki lífskjör almennings.

Við erum núna að ljúka lokaáfanganum í vegferðinni sem var farið af stað í eftir hrunið. Í fyrsta lagi voru það neyðarlögin sem tryggðu að við gátum endurreist bankakerfið og héldum því fyrir utan. Í öðru lagi börðumst við gegn því allt síðasta kjörtímabil að skuldir yrðu þjóðnýttar með þeim hætti sem Icesave-samningarnir gerðu ráð fyrir. Í þriðja lagi er að gera upp slitabú föllnu bankanna eins og er verið að gera núna. Þá er mikilvægt að gæta að greiðslujöfnuði ríkissjóðs svo að lífskjör almennings verði ekki skert með nokkrum hætti.

Um leið og ég fagna því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir er mér sammála um að skerða ekki lífskjör almennings þá verð ég að segja að ég skil auðvitað þennan mikla pirring hjá stjórnarandstöðunni, kannski ekki hjá hv. þingmanni heldur meira hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og fleirum, (Forseti hringir.) yfir því að ríkisstjórninni sé að takast að aflétta hér gjaldeyrishöftum, verja stöðugleika og tryggja lífskjör almennings (Forseti hringir.) til framtíðar. Við getum fagnað því og verið glöð yfir að við náum því hér í dag ef við samþykkjum (Forseti hringir.) þetta frumvarp.