145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef, eins og hv. þingmaður tók vonandi eftir, fyrst og síðast verið að fjalla um umgjörðina á málinu. Ég skil vel að breyta þarf lögum um tekjuskatt til þess, sem hún mælir hér fyrir, að nauðasamningaleiðin sé fær. Ég er nú ekki vitlausari en það, virðulegi forseti, að ég veit að nauðasamningar eru á milli kröfuhafanna. En það er hins vegar verið að breyta lögum, það er verið að klæðskerasníða lög að því til að þeir velji að fara þá leið. Ég sagði það líka í framsögu minni að ég hef mikinn skilning á því að menn vilji frekar semja en að fara dómstólaleiðina. Ég hef mikinn skilning á því. En ég má væntanlega samt segja skoðun mína á því að mér finnst umgjörðin og málatilbúnaðurinn í kringum þetta allt ekki nógu gott.