145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir skuli fagna því að okkur sé með þessu að takast að verja lífskjör, með því hvernig verið er að gera þessi mál upp. Ég held að hann sé gríðarlega mikilvægur, þessi lokaáfangi sem okkur er að takast hér að ganga frá. Fyrst voru það neyðarlögin og þeir sem komu að því að setja þau á, þar sem okkur tókst að taka bankana út fyrir. Síðan var það baráttan á síðasta kjörtímabili gegn því að þjóðnýta skuldir sem okkur bar ekki að taka á okkur. Nú er það uppgjör við þrotabú þessara (Gripið fram í.) föllnu (Gripið fram í.) slitabúa. (Gripið fram í.) — Virðulegi forseti. Svo er það uppgjör á slitabúum þessara föllnu fjármálastofnana. (Gripið fram í.) — Virðulegi forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason er hér að taka tíma frá þeim ræðumanni sem er að flytja ræðu.

Þá er það sem ég ætla að koma inn á. Þessi pirringur sem ég skynja hér hjá stjórnarandstöðunni gagnvart umgjörðinni og öðrum þáttum er skiljanlegur vegna þess að okkur er að takast (Forseti hringir.) að aflétta gjaldeyrishöftum og vinna upp slitabú föllnu bankanna og verja lífskjör almennings. Það er það sem er fagnaðarefni. (Forseti hringir.) Ég er mjög ánægður með að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sé mér sammála um það.