145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins um skattbreytinguna sem við leggjum til. Hún er einfaldlega forsenda þess að búin geti gefið út skuldabréf til þess að gera sjálf sig upp vegna þess að þau þurfa að vera skráð á erlendum mörkuðum, sem ég kann ekki að nefna í svipinn en það er Euroclear — það er ákveðin tilhneiging þingmanna að horfa á hv. þm. Frosta Sigurjónsson þegar þeir reyna að muna nöfnin á mörkuðunum (Gripið fram í.) — en þau taka ekki við skráningu ef þau þurfa að standa skil á einhverjum skatti til ríkja. Þessu þurfti því að breyta og hefur þurft að breyta í tilviki margra annarra fyrirtækja líka. En eins og lögð hefur verið áhersla á snýst þetta ekki um tekjur. Þetta snýst einfaldlega um að búin geti skráð þessi skuldabréf á þessum tilteknu markaðstorgum og ég sé ekki, miðað við hagsmunina sem hér eru í húfi, að maður eigi að leggja lykkju á leið sína til að vera sérstaklega á móti því, einkum þegar engar tekjur eru í húfi heldur.

Varðandi hina spurninguna, um jafnræðið, vil ég benda á að það er einmitt eðli þessara nauðasamninga að kröfuhafarnir fá ekki að skipta eigum sínum yfir í gjaldeyri. Þeir munu ekki fá að fara með íslenskar eigur út úr hagkerfinu. Það er vegna þess að það eru höft. Þeir fá að gera upp erlendar eigur sínar vegna þess að þær hafa engin áhrif á greiðslujöfnuð. Þegar við afléttum höftum verður þetta náttúrlega ekki svona. Þá fara menn með eigur sínar og kaupa sér eitthvað í útlöndum og þar fram eftir götunum. Menn munu ekki þurfa að gefa þær eftir. Ef þetta er einhver spurning um jafnræði þá hallar frekar á kröfuhafana í því. Þeir gefa mjög mikið eftir til þess að fá að gera upp búin, en þegar (Forseti hringir.) höftum verður aflétt verður það ekki veruleikinn gagnvart íslenskum almenningi.