145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:36]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér álit og breytingartillögu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar við frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur það meginmarkmið að auðvelda nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þremur lagabálkum, lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki, auk þess leggur nefndin til breytingu á lögum um stöðugleikaskatt. Þessar breytingar fela í sér endurbætur á þeirri löggjöf sem Alþingi setti á vorþingi þegar annars vegar voru sett lög um stöðugleikaskatt og hins vegar gerðar ýmsar breytingar á lögum til að liðka fyrir nauðasamningum fallinna fjármálafyrirtækja.

Hv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar hefur í ræðu sinni rakið tilefni frumvarpsins og þeirra breytinga sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til. Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að þau skuldabréf sem kröfuhafar fá í hendur við fullnustu nauðasamninga njóti undanþágu frá afdráttarskatti. Samkvæmt minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneyti er með þessu verið að greiða fyrir því að skuldabréfin geti gengið kaupum og sölum á markaði, en skattskylda hér á landi mundi hamla því. Nefndin var upplýst um að stór aðili á sviði utanumhalds og uppgjörs vegna útgáfu skuldabréfa í Evrópu mundi ekki taka við skuldabréfunum til skráningar ef þau bæru afdráttarskatt. Jafnframt kom fram í frumvarpinu sjálfu að ráðuneytið hefur ekki gert ráð fyrir neinum tekjum af afdráttarskattinum.

Kröfuhafar sem eru búsettir í ríkjum sem hafa gert tvísköttunarsamninga við Ísland greiða hvort sem er ekki afdráttarskatt hér á landi. Eins og kunnugt er hefur Ísland gert tvísköttunarsamninga við fjölda ríkja. Eftir sem áður eru innlendir kröfuhafar skattskyldir hér á landi og erlendir kröfuhafar eru skattskyldir hver í sínu heimalandi af hugsanlegum tekjum af þessum skuldabréfum.

Í umsögn ríkisskattstjóra var hins vegar bent á að þrengja mætti undanþáguákvæðið og einskorða það við þau skuldabréf sem væru liður í að efna greiðslur samkvæmt nauðasamningi. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar gerir tillögu þess efnis til að bregðast við þessari ábendingu ríkisskattstjóra.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar tæknilegar breytingar til að greiða fyrir gerð nauðasamninga. Ég mun ekki fara yfir þær allar í þessari ræðu enda hefur framsögumaður málsins gert það ágætlega.

Ég vil koma stuttlega inn á tillögu frumvarpsins um að lækka hlutfall kröfuhafa eftir fjárhæðum á bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps úr 90% í 85%. Nefndin fékk umsagnir um að nauðsynlegt væri að lækka hlutfallið enn frekar, eða í 60%, og í minnisblaði sem nefndinni barst frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu var tekið undir þau sjónarmið. Í ljósi þess hve margir og smáir kröfuhafarnir eru er hætt við að margir þeirra muni ekki sækja kröfuhafafund, en samkvæmt gildandi lögum falla atkvæði þeirra sem ekki mæta til fundar sjálfkrafa á móti nauðasamningsfrumvarpinu. Meiri hluti nefndarinnar leggur til breytingartillögu þess efnis að aðeins séu tekin til greina atkvæði þeirra kröfuhafa sem mæta til fundarins og að samþykktarhlutfallið verði ekki lægra en 60% en að hámarki 85% til að koma til móts við þessi sjónarmið.

Þriðja breytingin sem ég vildi koma aðeins inn á í þessari stuttu ræðu kemur til í framhaldi af umsögnum slitabúa og viðbragða frá ráðuneyti um að nauðsynlegt sé að veita slitabúum aukinn frest til að ljúka því að afla samþykkis kröfuhafafunda um frumvarp þeirra að nauðasamningum. Fyrir áramót skulu slitabú hafa lagt samþykkta nauðasamninga fyrir héraðsdóm. Ljóst er að dómstólar þurfa svigrúm til að fjalla um nauðasamningana sem eru afar umfangsmiklir. Nefndin leggur því til að til þess verði veittur aukinn frestur. Dómstólar og slitabú skulu þó hafa lokið málum sínum fyrir 15. mars til að komast hjá álagningu stöðugleikaskattsins. Án slíks frests væri í raun verið að leggja stein í götu slitabúa sem hafa frá því að lög um stöðugleikaskatt voru sett í vor unnið í góðri trú að því að leysa þann vanda sem að þjóðarbúinu steðjar af nauðasamningum slitabúa sem hafa náð því tilsetta marki að uppfylla stöðugleikaskilyrði Seðlabankans.

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri til að þakka hv. framsögumanni málsins, Sigríði Andersen, fyrir hennar góða starf við vinnslu nefndarálitsins. Einnig vil ég þakka nefndinni fyrir gott starf sem og gestum sem komu fyrir nefndina og lögðu henni lið við vinnslu málsins.