145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hér í umræðunni í dag hafa komið fram margar spurningar. Það er talað um ógagnsæi, óvissu, hvað verður um eignirnar, er öruggt að þessi leið, en nú er verið að breyta lögum svo mögulegt sé að fara hana, verði til hagsbóta fyrir þjóðina? Það fór ekkert vel þegar bankarnir voru einkavæddir hér áður, þar fór sannarlega í gang atburðarás sem var ekki til hagsbóta fyrir þjóðina. Þannig að það ríkir mikil óvissa og margar spurningar eru uppi.

Ég vil spyrja hv. þingmann um það hvort breytingartillagan sem meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar setur fram við afdráttarskattinn sé nægileg til þess að ekki sé verið að gefa Tortóluliði, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson orðaði svo ágætlega fyrr í dag, einhver grið. Í fyrsta lagi: Telur hv. þingmaður að ákvæðið um afdráttarskattinn muni nýtast Tortóluliði? Í öðru lagi: Er breytingin nægileg til þess að svo verði ekki?

Hér hefur komið fram í umræðunni fyrr í dag að það virðist eins og verið sé að nota ferðina ekki aðeins til þess að sníða lögin að þörfum kröfuhafanna heldur einnig til þess að þóknast þeim sem eru með sjóði, t.d. á Tortóla.