145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef hlustað hér í dag af athygli á þær ræður sem hafa verið fluttar af framsögumönnum meiri hluta, 1. og 2. minni hluta og hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, og reynt að mynda mér skoðun á þessu flókna máli svo að ég geti tekið upplýsta og góða ákvörðun.

Mér finnst, virðulegi forseti, að hér standi upp úr gagnrýni á upplýsingar og gögn í þessu máli. Ég segi fyrir mitt leyti sem þingmaður að ég kemst ekki í öll þau gögn sem greinilega hafa verið lögð fram, sum í trúnaði, um þetta mál. Í stuttu andsvari við hv. þm. Frosta Sigurjónsson, sem er jafnframt eins og ég sagði áðan formaður efnahags- og viðskiptanefndar, langar mig að spyrja út í nefndarálitið og vinnu nefndarinnar. Eitt er að ræða um frumvarpið sem fjármálaráðherra lagði fram lögum samkvæmt með kostnaðargreiningu og öllu því en í 2. mgr. 30. gr. þingskapa stendur, með leyfi forseta:

„Mæli nefnd með samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunartillögu skal hún láta prenta með áliti sínu áætlun um þann kostnað sem hún telur ný lög eða ályktun hafa í för með sér fyrir ríkissjóð.“

Svo kemur:

„Enn fremur skal nefnd láta endurskoða kostnaðarmat stjórnarfrumvarps, samanber 37. gr., ef hún gerir verulegar breytingartillögur við frumvarpið.“

Ég tel, virðulegi forseti, að nefndin hafi gert verulegar breytingar á þessu frumvarpi og gagnrýni að svona stórar og miklar ákvarðanir skuli vera gerðar með breytingartillögu frá nefndinni en ekki með sérstöku frumvarpi sem fjármálaráðherra hefði flutt og við hefðum getað talað um.

Telur hv. þingmaður að nefndin hefði ekki átt að uppfylla þetta lagaskilyrði og prenta með í sitt álit (Forseti hringir.) hvað varðar 30. gr. þingskapa?