145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég skilji núna hver spurningin er. Við erum nefnilega að ræða tvö mál hérna samtímis og ég átta mig á því núna að hv. þingmaður er að ræða um gjaldeyrislögin, lög um gjaldeyrismál, en eftir þeim lögum fer Seðlabankinn þegar hann ákveður hvort hann veitir slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja undanþágu frá höftunum og ráðfærir sig síðan við fjármálaráðherra og því næst er niðurstaðan kynnt fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er mál nr. 172 … (KLM: … efnahags- og viðskiptanefnd fyrir þinginu.) Þetta mál sem við ræðum hér í dag, nr. 172, er ekki um gjaldeyrismálin, en samkvæmt lögum um gjaldeyrismál er verið að veita þessar undanþágur.

Hér er einfaldlega verið að gera tæknilegar breytingar á þeirri aðferðafræði sem lagt var upp með í vor, þ.e. á lögum um stöðugleikaskatt, og verið að liðka fyrir þannig að slitabúin geti raunverulega farið þá leið sem þeim var boðin, að leysa sinn vanda án þess að komi til fjármálalegs óstöðugleika, án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífskjör og (Forseti hringir.) án þess að hér verði greiðslujöfnuði þjóðarbúsins raskað.