145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég gera athugasemd. Einu sinni var ég ávíttur hér af forseta, reyndar ekki þeim sem situr núna, fyrir að koma hingað með tölvu. Núna hefði ég viljað koma með tölvu upp í pontu í stað þessa pappírsfargans. Burt séð frá því langar mig að fá hv. þingmann til að varpa aðeins betra ljósi á nokkra þætti sem vefjast fyrir mér — þeir eru reyndar allmargir. Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega ekki alveg dómbær á gegnsæið vegna þess að það er svo stór hluti af þessu sem ég á erfitt með að skilja. Ég hefði viljað miklu meiri tíma til að skoða þetta mál alveg í kjölinn. Það er stundum hægt að lesa og læra hratt en þetta mál er svo mikilvægt að ég hefði viljað betri tíma til að fara yfir það allt saman, sér í lagi þar sem breytingartillögur hv. efnahags- og viðskiptanefndar eru eftir því sem ég fæ best séð efnismeiri en frumvarpið sjálft, sem mér þykir benda til þess að það sé nauðsynlegt að fara mjög vel yfir málið eins og ég tel að hv. nefnd hafi væntanlega gert.

Ég velti fyrir mér tölunum sem menn nefna í þessu samhengi. Í samræðum mínum við hina ýmsu aðila um þetta mál hefur mér heyrst vera einhver ágreiningur um hvaða tölur séu réttar og sömuleiðis hvort það sé yfir höfuð hægt að vita tölurnar með fullkominni vissu fyrr en ferlinu er lokið. Mig langar gjarnan að heyra meira um þetta. Hversu vissir eru menn um tölurnar, virði Íslandsbanka sem dæmi eða aðrar tölur sem hefur verið fleygt fram? Það er oft sem tölurnar verða að miðju samtalsins, að mínu mati að miklu leyti að óþörfu, en mér þykir mikilvægt að við vitum hversu vel við vitum eitthvað um tölurnar. Allt ljós sem hv. þingmaður getur varpað á þetta þætti mér vænt um.