145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:56]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður velti fyrir sér hve mikil vissa væri á bak við þær tölur sem koma meðal annars fram í gögnum varðandi undanþáguna frá gjaldeyrishöftunum. Þá erum við ekki að ræða það mál sem er til umræðu hér í dag heldur stærra samhengi sem þetta mál er hluti af. (Gripið fram í.) Ég held að ég verði bara að vísa hv. þingmanni á greinargerðina sem Seðlabankinn afhenti efnahags- og viðskiptanefnd þar sem farið er yfir helstu tölurnar. Ég ætla að hlífa salnum við því að fara að lesa upp úr greinargerðinni en þar er bæði fjallað um tölurnar sjálfar og óvissuna sem um þær er; hún er töluverð. Tölurnar eru yfirleitt á nafnvirði, eða bókfærðu verði. Þar er meðal annars komið inn á það hversu mikið þær eignir sem færast yfir geti blásið upp í verðmæti eftir að þær hafa flust til ríkissjóðs. Þá er það þannig að ef þær hækka verður sú óvissa algerlega höndluð og viðráðanleg, þ.e. ef eignirnar verða komnar yfir til ríkisins. En ef skattaleiðin væri farin mundi hins vegar skipta mjög miklu máli hverjar eignirnar væru í raun og veru. Með þessari aðferð, þegar eignunum er öllum sópað til ríkisins, er minna áhyggjuefni hvort þær eru litlar eða miklar. Í báðum tilfellum þarf að taka þessa peninga að mestu leyti úr umferð. Það er aukaatriði ef við förum þessa leið en það er hins vegar stórt atriði ef við förum skattaleiðina.