145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:58]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott og skýrt svar.

Annað sem ég er að velta fyrir mér í sambandi við þessa skattundanþágu: Nú hafa einhverjir þingmenn komið í pontu og argast mikið yfir því að hér sé verið að veita mönnum of mikinn afslátt og eitthvað slíkt, nokkuð sem ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni að sé ekki aðalatriðið. Þetta er ekki tekjuöflunarleið. Við erum að reyna að losna við það vandamál sem gjaldeyrishöftin eru. Mér þykir mikilvægt að hafa fókusinn þar. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi verið rætt í nefnd eða annars staðar, að því er hv. þingmaður veit, að innheimta þennan skatt eftir öðrum leiðum sem mundu ekki þvælast fyrir þeim erlendu mörkuðum sem höndla með þessi skuldabréf. Var það yfir höfuð rætt eða er almennt ástæða til þess til að byrja með?