145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[16:59]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil hv. þingmann rétt var hann að velta fyrir sér afdráttarskattinum sem hefur verið talað um í þessu máli (Gripið fram í.) og hvort það hefði verið rætt að fara aðrar leiðir til að innheimta skatt á útgefin skuldabréf sem slitabúin gefa út í sambandi við slitin. Ég verð að segja að það var ekki farið út á þá braut. Það er staðreynd að þeir kröfuhafar sem kunna að hafa heimilisfesti á Íslandi eru skattskyldir samkvæmt íslenskum lögum og munu greiða skatta af þeim fjármagnstekjum sem þeir kunna að hafa af þessu. Þeir kröfuhafar sem hafa heimilisfesti erlendis greiða skatt í heimalandi sínu. Ég held að þetta eigi örugglega við um langstærstan hluta kröfuhafanna og þær fjárhæðir sem um teflir eru í þessu fari þannig að það hefði ekki komið til skattheimtu hvort eð er. Það var ekki markmið nefndarinnar að skattleggja þetta sérstaklega þar sem það er ekki hluti af því vandamáli sem var verið að leysa.