145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu blandast auðvitað saman umræða um þær afmörkuðu, tæknilegu breytingar sem nefndin leggur til að gerðar verði á lagaumgjörðinni um nauðasamninga vegna stöðugleikaskatts og stöðugleikaframlaga, og svo hins vegar hin stærri mynd sem við okkur blasir í ljósi þess að Alþingi fær ekki aðra aðkomu að umræðu um hina stærri mynd en þá umræðu sem hér fer fram í dag. Það er vegna þess að stjórnvöld hafa haldið spilum mjög þétt að sér og við einungis fengið að sjá kynningar sem bera vitni nokkurri sölumennsku, að ekki sé nú meira sagt, og málið kemur ekki í endanlegri afgreiðslu til meðferðar í þinginu.

Ég ætla fyrst að segja varðandi þær praktísku breytingar sem hér eru lagðar til að það er erfitt að fullyrða um afstöðu til þeirra. Ég velti því þó fyrir mér hversu mikil skynsemi er í því fólgin að hlaupa til með þeim hætti sem stjórnvöld leggja til og meiri hluti nefndarinnar leggur til núna, að afgreiða í snatri lengri fresti fyrir slitabúin til að ljúka nauðasamningum í ljósi þess að það er ekkert sem bendir til annars en að það kunni að vera hægt að kreista meira út úr hinum erlendu kröfuhöfum og við gætum jafnvel verið að styrkja samningsstöðu okkar eftir því sem lengra gengur fram í þessu ferli. Það hefur þess vegna vakið nokkra undrun mína hversu mikil áhersla hefur verið lögð á að afgreiða þetta mál allt saman með miklu hraði en það er erfitt að fullyrða nokkuð í því efni eins og málið er lagt upp.

Vegna þess að nokkuð hefur verið rætt í dag um afstöðu til stöðugleikaframlaganna og þeirrar niðurstöðu sem nú virðist komin af samningaviðræðum við hina erlendu kröfuhafa þá vil ég segja alveg skýrt að ég tel æskilegt að ná efnislegri niðurstöðu og ég tel flest benda til, miðað við þau gögn sem við höfum séð, að verið sé að ná niðurstöðu sem gangi a.m.k. langt í að mæta þeim markmiðum sem hljóta að skipta okkur mestu máli, þ.e. að erlendir kröfuhafar komist ekki út með eignir sínar héðan úr hagkerfinu heldur verði það þannig í reynd, eftir að þeir eru farnir, að það opnast líka leið fyrir innlenda aðila að komast úr höftum. En það er erfitt að staðhæfa nokkuð um það vegna þess að forsendurnar hafa ekki verið gerðar opinberar og vegna alls þess leynimakks sem hefur verið í kringum samningaviðræðurnar. Þetta er búið að vera langvinnt samningaþref, stappar líklega nærri að vera ár eða a.m.k. níu mánuðir. Leyndin í kringum þetta hefur auðvitað verið mjög mikil og það er ekki auðvelt að byggja samstöðu um tiltrú á niðurstöðu af þessum toga þegar af hálfu stjórnvalda er gengið fram með slíkri leynd. Það er hins vegar ánægjuefni og er mikilvægt að fagna því að ríkisstjórnin hefur í þessu reitt sig á faglega ráðgjöf Seðlabankans og mér finnst greinilegt af þeim upplýsingum sem þaðan er að fá og þeim greiningum sem Seðlabankinn hefur lagt fram að þar hafi verið unnið af vandvirkni við greiningu á ólíkum kostum og að samningaleiðin sem hér hefur verið farin eigi rætur að rekja til þess uppleggs sem þaðan er komið og vert að hrósa fagmennsku Seðlabankans að því leyti. Það er auðvitað fagnaðarefni að með þeim hætti hafi tekist að koma ríkisstjórninni niður úr þeim ógöngum sem hún var búin að koma sér í í upphafi ferils síns með digurbarkalegum upplýsingum um meðferð þessara mála og þeirrar ráðleysislegu hringekju eilífra nefndarskipana sem við urðum vitni að framan af kjörtímabilinu þegar hver vinahópur forustumanna ríkisstjórnarinnar á fætur öðrum var fenginn til að finna lausnir í þessum málum og fór fyrst og fremst í hringi. En það var ekki fyrr en menn reiddu sig á þá fagmennsku sem var að finna innan Seðlabankans sem eitthvað fór að gerast af viti í þeim málum.

Það er síðan gráglettið að hin efnislega niðurstaða sem verið er að kynna okkur núna er mjög í samræmi við það upplegg sem við lögðum fram í Samfylkingunni fyrir síðustu kosningar, að við þyrftum að nýta samningsstöðuna sem búið væri að skapa gagnvart kröfuhöfum og þá mætti gera ráð fyrir að skapaðist svigrúm upp á um 300 milljarða sem þyrfti að nýta til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Framsóknarflokkurinn talaði þá mjög digurbarkalega um að hann hygðist berja erlenda kröfuhafa með kylfum og fá gríðarlega peninga út úr því en nú er það þannig að Framsóknarflokkurinn semur í mestu vinsemd við erlenda kröfuhafa í staðinn fyrir að lemja þá með kylfum. Og Framsóknarflokkurinn sem talaði þá eins og ekki þyrfti að gæta að stjórnarskrárvörðum eignarréttindum kröfuhafa flýtir sér nú að semja við kröfuhafana til að forðast málssóknir.

Það er athyglisvert að sjá að menn hafa eitthvað lært af þessari vegferð og fagnaðarefni að sjá þennan viðsnúning af hálfu stjórnarflokkanna og þá sérstaklega Framsóknarflokksins. Það skiptir hins vegar mjög miklu máli að vel takist til við þessa aðgerð. Það er alveg rétt sem seðlabankastjóri hefur sagt að það er einungis eitt skot í byssunni og vert að minna á að þetta skot er í byssunni vegna þess að hún var hlaðin í tíð síðustu ríkisstjórnar með ákvörðuninni um að fella slitabúin undir gjaldeyrishöft. Og ég á enn þá eftir að heyra skýringar á því frá forustumönnum þessarar ríkisstjórnar hvernig í ósköpunum þeim datt í hug að styðja ekki þá aðgerð á síðasta kjörtímabili og hvað þá forustumönnum Sjálfstæðisflokksins að greiða hreinlega atkvæði gegn henni, því að þar var lagður sá grunnur sem við erum að nýta í dag til að verja þjóðarhagsmuni og koma fram íslenskum þörfum og hagsmunum gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum. Það hefði engin leið verið að semja við hina erlendu kröfuhafa eða setja þeim afarkosti ef þessi lagabreyting hefði ekki verið gerð.

Það er þess vegna mjög mikilvægt að allar staðreyndir verði upp á borðum og mögulegt sé fyrir jafnt óháða sérfræðinga og þjóðina alla að rýna þessar staðreyndir og mynda sér skoðun á því hvort hér sé nægjanlega vel að verki staðið. Ég get alveg tekið undir það sem hefur verið sagt að fjárhæð skatts skiptir ekki höfuðmáli. Það skiptir máli að vandinn sé tryggilega leystur og þess vegna er gagnsæið svo mikilvægt. Það hefur ekki verið til að skapa tiltrú á þetta mál að fylgjast með hinum vandræðalegu tilraunum ríkisstjórnarinnar til að þenja upp tölurnar á bak við það sem raunverulega hefur verið gert, þegar fulltrúar Framsóknarflokksins hafa skammast sín svo mikið yfir því að vera búnir að gefast upp á að berja kröfuhafa með kylfum og vera að ganga til samninga við þá að þeir þurfa að reyna að búa til tölur sem stemma við stöðugleikaskattinn og gera það með því að telja allt frá buxnanúmerinu á buxunum sem þeir eru í og upp í allt það sem búið var að leggja til í þessum málum áður og jafnvel hluti sem þeir voru tregir til að fallast á eins og Seðlabankabréfið í fyrra, það er nú tvítalið. Þessi vandræðagangur er ekki til að auka tiltrúna nákvæmlega á að verið sé að horfa á vandann eins og hann er, greina hann rétt og leysa hann.

Hættan sem við stöndum frammi fyrir er sú að erlendir kröfuhafar fari út með eignir sínar, eins og felst í þessari samningsgerð ríkisstjórnarinnar við hina erlendu kröfuhafa, og samt verði ekki svigrúm fyrir innlenda aðila til að komast burt með eignir sínar úr landinu, að lífeyrissjóðirnir verði áfram innan hafta, innlend fyrirtæki innan hafta, þjóðin búi áfram við hömlur á frjálsum fjármagnsflutningnum. Þetta er raunveruleg hætta og staðan er viðkvæm að þessu leyti.

Indefence hefur sett fram alvarlegar athugasemdir sem mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa tekið nógu alvarlega og mikilvægt er að ganga úr skugga um að brugðist sé við þeim athugasemdum með fullnægjandi hætti. Þetta er svo viðkvæm staða að ríkisstjórnin virðist til dæmis núna vera búin að klúðra því að leysa aflandskrónustöðuna. Vegna þess að menn hafa ekki komið sér að verki í réttri röð er flest sem bendir til þess að þegar loksins verður ráðist í útboð aflandskróna muni eigendur þeirra ekki sjá sér sérstakan hag í því að bjóða afslátt af þeim, sérstaklega ekki í ljósi yfirlýsinga sem við heyrum frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, forustumönnum úr ríkisstjórnarflokkunum eins og formanni þingflokks Framsóknarflokksins sem var að lofa hér afnámi hafta núna í upphafi næsta árs. Þá er það þannig að eigendur aflandskróna sem menn voru að gera sér raunhæfar væntingar um að mundu vera tilbúnir að taka þátt í útboði og horfast í augu við tap þar upp á kannski 100 milljarða, þeir sitja kannski og bíða. Ríkisstjórnin hefur bara í þessu eina tilviki klúðrað tækifæri sem var í hendi og það er alls óvíst núna að nokkur viðlíka árangur fáist af útboði vegna aflandskrónanna eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Það er líka vandi sem við munum áfram vinna með á næstu árum að koma eignum í verð og það skapar auðvitað gríðarlegan vanda þegar hér er um að ræða yfirtöku á allra handanna kröfum, allt frá hlutabréfum í tuskubúðum upp í skuldabréf á sveitarfélög, sem núna verða ríkiseign, skapar margháttaðan freistnivanda og margháttað rennerí á ráðherraskrifstofurnar til að passa að þessi fái nú að kaupa en ekki hinn og þá erum við ekki byrjuð að ræða sölu á bönkunum.

Það var athyglisvert að heyra formann efnahags- og viðskiptanefndar segja í útvarpsviðtali í morgun að það væri fráleitt að selja bankana erlendum aðilum. Þar með er verið að lýsa því að búið sé að taka þessa banka frá fyrir innlenda vildarvini. Það er búið að tryggja það núna að ekki verði efnt til neinnar samkeppni við erlenda fjárfesta um þessa banka. Nei, þeir eiga að vera fjáröflunarvélar fyrir vildarvini um ókomna tíð. (Gripið fram í.) Það á að setja þá í hendurnar á vel tengdum vinum og passa að þeir geti nýtt þá til að kroppa sér inn um ókomna tíð arð á kostnað þjóðarinnar. Og sannið þið til, þegar kemur að því verður réttlætingin fundin í því að aðeins þeir sem ætla sér að eignast banka til að skapa sér aðstöðu í innlendu valdamakki eru tilbúnir til að borga aukapremíu fyrir hlutabréf í bönkunum, alveg eins og gerðist fyrir hrun. Það er þess vegna sem yfirlýsing formanns efnahags- og viðskiptanefndar í útvarpinu í morgun er svo mikið áhyggjuefni. Ef það er eitthvað sem við þurfum þá er það að selja einn þessara banka til erlendra eigenda. Og kjaftæðið sem heyrist um að það sé skaðlegt fyrir gjaldeyrisjöfnuð þjóðarinnar er eins og hvert annað þrugl því að söluverð banka, ef bankinn er rétt verðmetinn, getur aldrei verið annað en væntar framtíðararðgreiðslur núvirtar, þannig að það verður aldrei annað en það fáist raunvirði fyrir bankann inn í landið í erlendum gjaldeyri sem réttlætir þá að greiddur sé arður úr honum til framtíðar.

Það sem við þurfum síðar að ræða, sem er alveg órætt líka, er með höftin að öðru leyti. Hér er ýjað að því að þau verði afnumin hratt á næsta ári. Það kann vel að vera að það verði hægt um stund að aflétta hömlum að einhverju leyti af viðskiptum með krónur á meðan vaxtastig er mun hærra hér en í öðrum löndum og á meðan innflæðisgusurnar eru eins og líkur eru á að þær verði nú í fyrirsjáanlegri framtíð. En við vitum af mjög biturri reynslu að frjálsir fjármagnsflutningar og íslensk króna er eitruð blanda og við höfum ekki enn þá séð útfærðar tillögur um afnám hafta fyrir íslenskan almenning, íslensk fyrirtæki og íslenska lífeyrissjóði. Það er mjög athyglisvert að ríkisstjórnin skuli ekki hafa treyst sér að leggja fram endurskoðaða áætlun um afnám hafta. Eina áætlunin sem enn þá er í gildi er sú sem var kynnt og birt í tíð minni sem efnahags- og viðskiptaráðherra í mars 2011. Það er sú áætlun um afnám gjaldeyrishafta sem enn þá er í gildi. Og það er alveg einstakt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa haft manndóm í sér til að koma með einhverja nýja sýn um það í ljósi allra þessara breytinga um það hvernig höftum geti verið aflétt á fyrirtæki, almenning og lífeyrissjóði. Þvert á móti er það þannig að það eina sem hefur verið gefið út handfast er að lífeyrissjóðir megi vænta þess að fá 10 milljarða kvóta, sem allir vita að er allt of lítið fyrir lífeyrissjóðina. Þetta er auðvitað það sem mestu skiptir að fá eitthvert fyrirheit um en þá líka þannig að menn hafi útfærðar hugmyndir um það hvernig hægt sé að viðhalda opnu viðskiptaumhverfi í framhaldinu.

Núna er einstakt tækifæri að verða til. Við erum búin að nýta þá stöðu sem skapaðist með neyðarlögunum og með löggjöfinni í mars 2012 þegar við felldum slitabúin undir höft til að létta á stærstu vandamálunum sem við var að glíma varðandi gjaldeyrisútflæðismisvægi þjóðarbúsins. Núna eru þá kjöraðstæður til að koma okkur út úr hinni eilífu hringrás efnahagslegs óstöðugleika sem flest bendir til að bíði handan við hornið að óbreyttu, þ.e. það blasir við að óbreyttri hringrás uppgangs verðbólgu, vaxtahækkana, gengisfellingar, hækkunar verðtryggðra lána. Við þekkjum þá hringrás því miður allt of vel. Það þyrfti núna ríkisstjórn sem væri tilbúin til að fara aðra leið, nýta þetta sögulega tækifæri til að taka upp annan gjaldmiðil, losa okkur úr þessari ójafnvægishringrás og leggja grunn að betri aðstæðum fyrir almenning og fyrirtæki á Íslandi.