145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með þessari röksemd er bara hægt að leggja af erlenda fjárfestingu. Hún er þá beinlínis vond.

Kaupverð banka hlýtur að fela í sér núvirtar væntar endurheimtur úr bankanum og þar af leiðandi er ekki um það að ræða að menn borgi eitthvert lægra verð fyrir bankann en þeir búast við að hann skili í arð um ókomna tíð. Ef bankinn er rétt verðlagður kaupa menn hann á þeirri forsendu sem þeir gefa sér um arðgreiðslur úr honum til lengri tíma litið og núvirða þær.

Það eru margir kostir við erlent eignarhald á bönkum, sérstaklega í fákeppnisumhverfi eins og við búum við núna þar sem þrír stórir bankar eru ráðandi á markaði, allir með líkan áhættuprófíl og hafa saman gríðarlega fjármálastöðugleikaáhættu fyrir þjóðarbúið. Það mundi skipta miklu máli ef einn þeirra væri í erlendri eigu og hefði þar af leiðandi aðgang að lánafyrirgreiðslu frá erlendum eiganda.

Í ræðunni sem var flutt hér áðan fólst einangrunarhyggja. Útskýringarnar gengu allar að því að erlent eignarhald væri vont út af fyrir sig. Það er ekkert annað en skýr vitnisburður um einlægan vilja forustumanns Framsóknarflokksins um að passa að erlendir aðilar fái ekki að kaupa þessa banka og halda þeim þar af leiðandi fráteknum fyrir innlenda kaupendur. Hverjir eru þeir? Við vitum það alveg. Það eru viðskiptablokkir sem standa órofa hlið við hlið með forustu ríkisstjórnarflokkanna, skipta sér niður á flokkana, eiga málsgögnin sem þeir reiða sig á og ganga með þeim hönd í hönd frá morgni til miðnættis.