145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt fyrir Ísland að samkeppni sé á bankamarkaði. Við höfum búið við vaxandi fákeppni í kjölfar hruns, samþjöppun. Þar af leiðandi væri mjög mikilvægt að fá erlent eignarhald, þótt ekki væri nema bara til að brjóta upp eignarhaldsstrúktúr bankanna. Það er fullkomlega óraunsætt að halda að hægt sé að selja þrjá banka íslenskum lífeyrissjóðum. Ef við gerum það þá erum við í reynd bara að breyta lífeyriskerfinu í gegnumstreymiskerfi. Við erum þá bara að segja að íslenska þjóðin ætli að reka bankana. Bankakerfið verður þá hluti af ríkisvaldinu með einum eða öðrum hætti.

Það er mjög mikilvægt að það sé ólíkt eignarhald á bönkum. Hv. þingmaður spyr hér í forundran hvers vegna ég láti að því liggja að yfirlýsingar frá forustumanni Framsóknarflokksins um að það komi ekki til greina að selja útlendingum banka geti falið í sér að þeir séu fráteknir fyrir vildarvini. Sporin hræða, hv. þingmaður. Þessir flokkar seldu banka og þeir handvöldu kaupendurna. Þeir lugu að þjóðinni um efnislegar forsendur sölunnar á sínum tíma. Þeir gáfu mönnum hæstu einkunn fyrir skýrleika tilboðs, sem breyttu tilboðinu í grundvallaratriðum frá upphafi til enda. Þeir hafa staðið gegn því að hér fari fram rannsókn sem búið er að samþykkja af Alþingi Íslendinga á þeirri einkavæðingu. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Það er hann sjálfur sem kemur í veg fyrir að sukk fortíðarinnar sé rannsakað. Ætlar hann svo að koma hingað saklausari en steiktur engill á svipinn og halda því fram að hann skilji ekki upp eða niður í því að fólk hafi efasemdir um heiðarleika og einlægni Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í að velja vel og af sanngirni kaupendur að bönkum? Heyr á endemi. Sporin hræða og þegar menn (Forseti hringir.) eru ákveðnir í því og einbeittir að koma í veg fyrir að (Forseti hringir.) rannsökuð séu mistök fortíðarinnar þá eru þeir að segja að þá langi til að endurtaka þau.