145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[17:30]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Síðan ég kom inn í pólitík var það fyrri ríkisstjórn, eina ríkisstjórnin sem ég hef upplifað að hafi afhent einhverjum banka og það var þegar kröfuhöfum voru afhentir bankar á síðasta kjörtímabili. En að hlusta á ræðu — (Gripið fram í.) virðulegi forseti, þá verða stjórnarandstæðingar hér í salnum pirraðir og grípa fram í. (Gripið fram í.) Það er akkúrat þetta sem ég ætla að koma inn á næst í ræðu minni, það er þessi pirringur sem er í stjórnarandstöðunni yfir því að við séum að ná að klára þessi mál með þeim hætti að verja lífsgæði til frambúðar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um og nefna er að hann kemur inn á áætlun um losun gjaldeyrishafta í máli sínu og segir þar að við séum að vinna á grunni áætlunar sem unnin var á sínum tíma af fyrri ríkisstjórn árið 2011. Ég er með þessa áætlun um losun gjaldeyrishafta fyrir framan mig og þar er á engan hátt og hvergi fjallað um slitabú föllnu bankanna. Þar er fyrst og fremst fjallað um aflandskrónur og að síðan eigi að hleypa öðrum kröfum út og þeim sem vilja komast út með gjaldeyri. Núverandi ríkisstjórn er að bæta ofan á þá áætlun og er að taka á slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja. Það sem skiptir máli í því er að við erum að verja lífsgæði, verja lífskjör, verja greiðslujöfnuð í samfélaginu. Það er auðvitað ekkert skrýtið að hv. þingmaður sem fór í marga hringi í ræðu sinni; hann er fylgjandi því að gera þetta, hann er á móti því, hann fer út og suður í málflutningi sínum; sé aðeins pirraður yfir því að okkur skuli vera að takast þetta verkefni, okkur skuli vera að takast það að taka á þrotabúum föllnu bankanna með þeim lögum sem sett voru og allir studdu í þinginu þar sem settar voru upp tvær leiðir. (Forseti hringir.) Það er ekkert skrýtið að hv. þm. Árni Páll Árnason sé pirraður yfir því og beiti þar af leiðandi ómálefnalegum árásum á (SII: Hver er spurningin?) hv. þm. Frosta Sigurjónsson.