145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur kærlega fyrir þetta andsvar. Lokaorðin voru dýrmæt. Þegar hann gaf bankana til erlendra kröfuhafa. Þeir voru sem sagt gefnir. Þeir voru gefnir. (Gripið fram í.) Bankar sem voru stofnaðir með 890 millj. kr. grunnframlagi, sama og þarf til að stofna lítinn sparisjóð, og stóðu ófjármagnaðir þangað til niðurstöður samninga voru komnar um uppgjörið milli gömlu og nýju bankanna, kröfuhafarnir reiddu fram fé til þeirra, ríkið slapp við að borga þann vaxtakostnað o.s.frv. En þessu er haldið fram. Það er mjög verðmætt að hafa það í þingtíðindunum að svona lítur hv. þm. frú Vigdís Hauksdóttir á þetta, að bankarnir hafi verið gefnir, þvert á allar staðreyndir.

Ég hef engar áhyggjur af því þótt ESA rannsaki enn eitt af þessum málum, ég hélt að það væri búið því að það er búið að rannsaka bæði stofnun sparisjóðanna eða endurfjármögnun sparisjóða og að ég hélt stofnun nýju bankanna. Um tíma voru 12 mál í rannsókn hjá ESA vegna hrunsins (Forseti hringir.) og ýmiss konar aðgerða stjórnvalda í kjölfarið þannig að ég kippi mér ekki mikið upp við það þó að eitt mál sé í rannsókn enn.