145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að þingmaðurinn hæðist að því þegar þessi þrotabú voru færð yfir til kröfuhafanna, þessi þrotabú. En það skal upplýst hér að ég legg fram á þingflokksfundi framsóknarmanna á morgun þingsályktunartillögu sem felur í sér að farið verði í rannsókn á einkavæðingu bankanna hinna síðari, rannsókn sem snýr að því að þegar bankarnir voru færðir yfir til kröfuhafa á einni nóttu án þess að nokkurt verðmat lægi fyrir.

Hér fór þingmaðurinn yfir Landsbankabréfið sem þvældist mjög inn í Icesave-málið. Sem betur fer hafði íslenska þjóðin sigur í Icesave-málinu hjá EFTA-dómstólnum. Hér gagnrýnir þingmaðurinn að verið sé að setja það inn í þetta stöðugleikaframlag. Það er vegna þess að skuldabréfið var tekið í erlendum gjaldeyri sem ekki var til í landinu á þessum tíma. Hér er því verið að einfalda hlutina mikið.

Mig langar að lokum að spyrja: (Forseti hringir.) Hver var stefna Vinstri grænna fyrir alþingiskosningarnar árið 2013 í málefnum kröfuhafanna þar sem Framsóknarflokkurinn var sakaður um blekkingar og lygar varðandi það að hægt væri að sækja þessar kröfur til kröfuhafanna?