145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var flutt fullsterk og áhrifarík ræða af fyrrverandi fjármálaráðherra sem stóð í stafni þegar menn brutust í gegnum verstu holskeflurnar sem riðið hafa yfir íslenskt efnahagslíf frá upphafi lýðveldisins. Mér fannst að í fyrri parti ræðunnar drægi hv. þingmaður mjög vel saman þær efasemdir sem við höfum um þá niðurstöðu sem verið er að ræða. Sérstaklega vakti eftirtekt mína umfjöllun hans um ráðstöfun, örlög og afleiðingar aflandskrónunnar.

Nú er rétt að rifja það upp að allar ríkisstjórnir, að þessari meðtalinni, sem setið hafa síðan 2010, hafa ákveðnar tímalínur; nudda fyrst niður aflandskrónunum og smala þeim út í gegnum uppboð og fara síðan í að virkja krónueign búanna. Nú virðist sem búið sé að riðla þessari tímalínu og það virðist vera búið að klúðra þessu útboði á aflandskrónum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann að valdi því? Í öðru lagi: Hverjar telur hann að kunni að verða afleiðingarnar af því að breyta þessari tímaröð, vegna þess að það skapar ákveðinn freistnivanda fyrir eigendur aflandskróna að bíða, sérstaklega í ljósi yfirlýsinga hæstv. ríkisstjórnar um að fram undan sé afnám gjaldeyrishafta núna á næstu missirum og mánuðum?