145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:13]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er um að ræða 300 milljarða kr. vanda sem felst í þessum aflandskrónum. Hv. þingmaður hefur vakið eftirtekt á því að það er eins og menn geri ekki ráð fyrir því hvernig eigi að hlutleysa þessar krónur. Það er margt sem bendir til þess að eigendum þeirra kunni að hugnast betur að halda þeim á Íslandi. Það er alveg ljóst að ríkisstjórninni hafa með einhverjum hætti orðið á einhvers konar glöp eða mistök með því að klára þetta mál ekki fyrst eins og hún lýsti yfir að hún hygðist gera þegar aðgerðirnar voru kynntar hér eftir fundinn fræga í Hörpu. Mér finnst að við getum ekki leyft okkur að samþykkja hluti sem við skiljum ekki til fulls. Það kemur fram í ræðum þeirra sem hafa talað af hálfu stjórnarsinna að þeir hafi ekki velt þessu fyrir sér í nefndinni. Þetta atriði, ásamt því að það virðast ekki vera neinar tölulegar greiningar sem gera kleifan samanburð á þessum tveimur leiðum leiða mig til að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann: Telur hann ekki rétt að taka þetta mál aftur inn í nefnd og skoða hvort tveggja áður en frumvarpið er endanlega afgreitt?