145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:14]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins fyrst um vaxtamunarviðskiptin. Ég nefndi þessa 50 milljarða tölu sem er komin inn í hagkerfið frá áramótum, byrjaði eitthvað að bera á því á síðasta ári. Seðlabankinn hefur keypt gjaldeyri fyrir 200 milljarða á árinu og samt hefur gengið styrkst. Hann hefur sýnt einbeittan vilja til að reyna að koma í veg fyrir að gengið styrktist og vaxtamunarviðskiptin færu á fullt skrið aftur, sem er rétt og skylt en engu að síður eiga hans eigin vaxahækkanir vissan þátt í því að þessi þróun er aftur komin af stað. Ef það er eitthvað sem við erum illa brenndir af þá er það þetta. Það sem ég er aðallega að velta fyrir mér er hvort þarna geti safnast upp og skotist inn í framtíðina meiri vandi en menn voru að vona, t.d. þegar verið var að fjalla um þetta í vor. Já, ég teldi það auðvitað mjög gott ef efnahags- og viðskiptanefnd gæti gefið sér tíma til þess að fara meðal annars vel yfir hluti af þessu tagi. Það voru um það svardagar í vor að þetta yrði unnið í nánu samræmi við efnahags- og viðskiptanefnd. Lítið hefur farið fyrir því sem og náttúrulega að ekkert (Forseti hringir.) samráð hefur verið haft í þverpólitísku nefndinni um afnám hafta, sem er mjög miður og ámælisvert.