145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er alltaf sá þegar menn lenda í mótsagnakenndum aðstæðum við hagstjórn. Ef við tökum vaxtamunarviðskiptin og áhættuna af þeim er ég þeirrar skoðunar að raungengi krónunnar megi ekki styrkjast. Ef eitthvað er hef ég áhyggjur af því að það hafi nú þegar styrkst of mikið. Við þurfum áfram mjög hagstætt gengi fyrir útflutningsgreinarnar til að fóstra okkar erlendu skuldir o.s.frv. En um leið er veikt gengi aðlaðandi fyrir hina erlendu fjárfesta, því að það er ódýrt að kaupa krónurnar. — Mótsögn. Það sem við þurfum er ekki endilega það sem í þessu tilviki auðveldar okkur hagstjórnarlega að glíma við vaxtamunarviðskipti.

Þá að vöxtunum. Er ekki um að gera að Seðlabankinn lækki hressilega vextina og þá verður vaxtamunurinn miklu minni og minni ávöxtun á fénu hér? Jú, en á móti kemur kannski að við erum að glíma við þenslu og verðbólgu og Seðlabankinn hefur ekki mörg önnur tæki. Ég vildi gjarnan sjá vextina lækka, það er mjög dýrt og erfitt að þurfa að vera með þetta háa raunvaxtastig hér, en mín niðurstaða er sú að Seðlabankinn ræður ekki við það einn. Hann fær hjálp til dæmis frá ríkinu, sem með (Forseti hringir.) aðhaldssamri og skynsamlegri ríkisfjármálastefnu auðveldar Seðlabankanum þessa glímu (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að torvelda honum hana.