145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek þessa athugasemd til greina en árétta þó að athugasemdir mínar hvað þetta varðar eiga jafn vel við. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu og líka í nefndarálitinu. Í frumvarpinu sjálfu segir að tilgangurinn sé að skapa hér skilyrði til þess að löggjafinn, íslenska ríkið, geti boðið upp á raunhæfan kost, að ljúka þessu máli með nauðasamningi. Rætt var á þingi í sumar að uppi væru tvær mögulegar leiðir. Önnur er leið stöðugleikaskattsins, hin leiðin er nauðasamningaleiðin. Til þess að hægt sé að fara seinni leiðina þarf að vera raunhæfur möguleiki á því fyrir kröfuhafana að ljúka málum með nauðasamningi.

Nú er það þannig að almennar reglur gjaldþrotaskiptaréttar ná ekki nema að nokkru leyti utan um mál sem þetta. Það eru enda sérstakar sérreglur sem gilda um slit fjármálafyrirtækja í lögum nr. 166/2002, það er sérstakur kafli um það. Þeim kafla hefur margoft verið breytt eftir fjármálahrunið vegna þess að menn standa auðvitað frammi fyrir fordæmalausum aðstæðum og hafa þurft að bregðast við atvikum sem koma upp á ýmsum stigum málsins, ekki þessa máls sérstaklega, búið var að breyta reglunum löngu áður en við sáum í hvað stefndi með hina erlendu kröfuhafa. Það ætti ekki að koma neinum á óvart. Hvað hin föllnu fjármálafyrirtæki varðar hafa reglurnar bara verið ómótaðar, óskýrar. Það hefur þurft að taka á því og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta verður örugglega ekki síðasta breytingin á reglum um slit fjármálafyrirtækja. Það held ég ekki. Menn skyldu vera viðbúnir því að taka þær til nánari endurskoðunar og síðar, þegar rykið hefur sest, að taka þessar reglur til heildarendurskoðunar.