145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er, eins og fram hefur komið, á ferðinni nokkuð sérstakt mál þar sem ríkisstjórnin fer fram á það við Alþingi að það slaki á þeim kröfum sem gerðar eru í málefnum erlendra kröfuhafa, losi um böndin sem erlendir kröfuhafar hafa verið bundnir í til að þeir geti nýtt sér þá glufu sem opnuð verður og smokrað sér undan þeim stöðugleikaskatti sem samþykktur var á vordögum og mundi hafa í för með sér miklum mun hagfelldari niðurstöðu bæði fyrir ríkissjóð Íslands og fyrir greiðslujöfnuð landsins og efnahag þess allan. Sú leið sem hér er verið að opna mun á nokkurra ára tímabili þýða fyrir íslenskan efnahag samkvæmt hagfræðingi í Indefence um 400 milljarða útstreymi sem augljóslega mun hafa umtalsverð áhrif á efnahag okkar.

Það er auðvitað nokkuð sérstakt að löggjafinn eigi að leggja sérstaka lykkju á leið sína til að breyta lögum og slaka á kröfum til að gera aðilum mögulegt að koma sér undan skatti sem sami löggjafi hefur nýlega samþykkt að aðilarnir eigi að greiða. Það er því full ástæða fyrir Alþingi, líka í ljósi þess um hve háar fjárhæðir er að tefla, að fara mjög vandlega yfir þær röksemdir sem fram eru færðar í málinu.

Eins og fram hefur komið er ástæða þess að við höfum þessa sterku stöðu gagnvart slitabúum föllnu bankanna og gagnvart hinum erlendu kröfuhöfum þau lög sem sett voru á síðasta kjörtímabili í stjórnartíð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Það kom í minn hlut þann 12. mars sem formanns efnahags- og viðskiptanefndar að flytja frumvarp sem Seðlabankinn hafði undirbúið um að taka erlenda kröfuhafa hér undir gjaldeyrishöft og banna með lögum að fjármunir þeirra yrðu færðir úr íslenskri efnahagslögsögu nema til kæmi sérstakt samþykki. Sú löggjöf var afgreidd með miklum hraði í gegnum þingið. Ég hygg að ég hafi mælt fyrir henni kl. 4 síðdegis og hún hafi verið orðin að lögum þá um miðnætti. Stundum hefur verið bent á að þeir flokkar sem nú eru stjórnarflokkar í landinu, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur, studdu ekki frumvarpið þegar það kom hér til atkvæða og raunar lagðist annar flokkurinn gegn því. Ég held að það verði að segja svo allrar sanngirni sé gætt að í þeirri hröðu afgreiðslu sem var á málinu í gegnum þingið hefði kannski ekki verið hægt að ætlast til þess af þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að þeir gætu sett sig með fullnægjandi hætti inn í málið. Það verði að skilja afstöðu þeirra í því ljósi að þeim hafi einfaldlega ekki verið nægilega ljóst hversu gríðarlega sterk tök Ísland var að fá í uppgjörinu við erlenda kröfuhafa með þessari lagasetningu.

Engu að síður sameinaðist þingheimur um að hraðafgreiða málið í gegnum þrjár umræður og um það tókst full samstaða og er ástæða til að þakka fyrir þá samstöðu og fyrir þær mikilvægu breytingar sem gerðar voru á lögunum í meðferð þingsins því að það kom fram við meðferð málsins að í hinu upphaflega frumvarpi væri teflt á tæpasta vað gagnvart stjórnarskrá landsins um afturvirkni laga. Þá höfðu fallið nýlega dómar í Hæstarétti sem sneru að lagasetningu um erlend lán þar sem upphaflegt upplegg Seðlabankans hafði verið dæmt ólögmætt í því tilfelli hvað varðaði afturvirkni laga. Þess vegna var full ástæða til að líta til þeirra varúðarsjónarmiða sem fram komu við meðferð málsins hvað þetta varðaði, sömuleiðis í ljósi þess að lögfest höfðu verið gjaldeyrishöft án þess að refsiheimildir hefðu verið nægilega tryggilega festar í lög og ýmsar aðrar ástæður gáfu þinginu fullt tilefni til að standa varlega og vandlega að þessari lagasetningu.

Með því að undanskilja það fé í erlendum gjaldeyri sem þegar var þá uppsafnað á reikningum erlendis tókst að gera þessi höft á erlenda kröfuhafa að lögum með þeim hætti að þau hafa staðið óumdeild í þrjú og hálft ár, enginn hefur farið í mál vegna þeirrar lagasetningar, allir virða þá lagasetningu og hún tryggir að það er í höndum Alþingis hvort og hvernig kröfuhafarnir losna úr landinu með sitt fé sannarlega, erlendan gjaldeyri, og síðan það sem þeir eiga að fá í skiptum fyrir þær íslensku krónur sem þeir eiga.

Nú gætu menn haldið að þetta snerist eitthvað um það að taka fé af kröfuhöfum. Það er ekki með þeim hætti þannig að þeir sem hlusta á umræðuna séu sér meðvitaðir um það. Þetta snýst einfaldlega um það að þessar 1.200 milljarða kr. eignir erlendra aðila í íslenskum efnahag jafngilda kannski 8 milljörðum evra eða svipaðri fjárhæð í bandaríkjadölum og það eru einfaldlega engir peningar til á Íslandi til að reiða fram sem endurgjald fyrir þessar íslensku krónur. Það er ósköp svipað eins og þegar menn voru að bjóða í löndum Austur-Evrópu fyrr á árum miklu hagstæðara skiptigengi á erlendum gjaldeyri ef menn gátu losnað við sinn eigin á móti. Það er sem sagt verið að þrátta við erlenda kröfuhafa um það hvað sé raunsætt gengi á íslensku krónunni og öllum er ljóst að það er ekki hið skráða opinbera gengi. Það eru einfaldlega engin verðmæti til í landinu til að borga fyrir þessar skráðu innstæður í íslenskum krónum. Þetta eru einfaldlega íslenskar krónur sem hafa verið prentaðar sem enginn gjaldeyrir er til á móti.

Það er því gríðarlega mikilvægt að þegar um þetta er samið sé afar varlega farið. Það er alveg ljóst að hinir erlendu kröfuhafar hafa mikinn ávinning af því að ná samningum. Sá ávinningur er ekki fyrst og fremst fólginn í því að losa um þær íslensku krónur sem þeir eiga hér og fá það greitt í gjaldeyri heldur er margfalt meiri ávinningur fyrir þá í því að fá í hendur eignirnar sem eru í erlendum gjaldeyri í búinu, það eru auðvitað miklu hærri fjárhæðir en þær sem hér er verið að tefla um. En það skiptir miklu máli fyrir Ísland að við lofum ekki meiri gjaldeyri fyrir þessar íslensku krónur en við getum staðið undir.

Þá er sérstök ástæða til þess að við rýnum vel hvaða áhrif þetta getur haft á greiðslujöfnuð Íslands á næstu árum, sérstaklega í ljósi þess að í sjöttu endurskoðunarskýrslu sinni í júní sagði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að hér á Íslandi gætti mikillar bjartsýni um afnám hafta. En í veruleikanum væri svigrúm til afnáms hafta ekki verulegt og það gæti minnkað mikið með launahækkunum og þeim aukna viðskiptahalla sem því mun fylgja.

Þegar við höfum nýleg slík varnaðarorð frá alþjóðlegri stofnun sem er sérhæfð í því að rýna efnahag þjóða þá eigum við auðvitað að hlusta mjög grannt eftir því það væri ekki í fyrsta sinn sem við yrðum á óraunhæfum grunni of bjartsýn um getu okkar til að fara að fleyta íslensku krónunni á nýjan leik. Við höfum áður kollsiglt okkur með því að vanmeta stöðuna, með því að ofmeta möguleika okkar á því að sleppa höftum af krónunni með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið. Þegar greiðslujöfnuðurinn sem Seðlabankinn hefur nú reiknað út — og er auðvitað óviss vegna þess að hann er spá um framtíðina eins og allt það sem snýr að framtíðinni í efnahagsmálum getur verið breytingum undirorpið — er í fyrsta lagi neikvæður um eina 28 milljarða og við það bætist að þeirri niðurstöðu er aðeins náð með því að gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðum okkar verði áfram haldið innan gjaldeyrishafta um langt árabil sem þó glíma við mikla uppsafnaða fjárfestingarþörf, sívaxandi fjárfestingarþörf og hafa mikla þörf fyrir það að komast úr landi með hluta af lífeyrissparnaði okkar og komast út úr höftum, þá er auðvitað enn ríkari ástæða til að spyrja: Er slík lausn sem er búin til með því að halda lífeyrissjóðum okkar áfram inni í höftum jafn gild því að leggja stöðugleikaskatt á búin og einfaldlega láta þau greiða í íslenskum krónum þá fjármuni sem þarf, ekki til að tryggja nærri því eða nálægt því greiðslujöfnuð heldur til að tryggja hann að fullu og öllu? Það er ástæða til að spyrja því að hér eru miklir hagsmunir. Þær spár sem þessi sviðsmynd gerir ráð fyrir byggja einnig á núverandi efnahagsástandi þar sem olíuverð er lágt, fiskverð ágætt, aflabrögð góð og ýmsar aðrar mælistikur og mikilvægar breytur fyrir íslenskt efnahagslíf fremur jákvæðar. Allt sem kann að breytast í þeim efnum á verri veg á spátímanum verður auðvitað til að halla þessu dæmi til hins verra.

Maður verður líka að setja spurningarmerki við það hvers vegna það eigi að taka óviss verðmæti eins og hlutabréf í fjármálafyrirtækjum sem enginn veit hvaða verðmæti felast í, kröfur á hina og þessa aðila, hlutabréf í öðrum fyrirtækjum á markaði, í stað þess einfaldlega að láta þrotabúin greiða skattinn en annast sjálf að selja hlutabréfin, innheimta kröfurnar eða annað það sem þarf til að gera þetta að verðmæti. Hvers vegna á ríkissjóður að taka að sér þetta milligönguhlutverk? Auðvitað vakna við það áhyggjur um að einhver sérstakur áhugi sé á því í þessum samningaumleitunum sem hafa staðið milli ríkisstjórnarinnar og kröfuhafana, þó að þrætt sé fyrir það, að komast í þessi hlutabréf, ekki síst vegna þess að það sem breyst hefur frá því að þessi drög að samningsniðurstöðu voru kynnt í vor og þangað til menn fallast loksins á að taka málið fullbúið inn í þingið er að samningunum er breytt þannig að ríkið fær hlutabréfin í Íslandsbanka. Það er mál sem við þurfum að ræða hér aftur og betur en við þurfum líka að spyrja að því með hvaða hætti eignarhaldið á Arion banka hefur komið inn í þessar viðræður. Ég minni á fréttir sem nýlega hafa verið sagðar af því að slitabúin hafi hafið einhvers konar viðræður um sölu á þeim eignarhluta til tiltekinna aðila á Íslandi en ekki í opnu, almennu allsherjarútboði, og það má spyrja hvort það sé einhver hluti af því sem hér er á ferðinni.

Virðulegi forseti. Ég tek fyrst og fremst undir með þeim sem hafa sagt það í umræðunni að lykilspurningunum í málinu sé því miður enn ekki svarað. Hvers vegna ætti ekki einfaldlega að láta lögin standa óbreytt, þ.e. afgreiða ekki þær ívilnanir fyrir erlenda kröfuhafa sem hér er verið að leggja til, og láta stöðugleikaskattinn falla einfaldlega á búin? Það er ekkert sem kemur í veg fyrir það. Stöðugleikaskatturinn var settur á við ákveðin skilyrði, í ákveðnu lagaumhverfi og það er ekkert sem mælir í mínum huga gegn því að það lagaumhverfi standi óbreytt. Þá geta hinir erlendu kröfuhafar annaðhvort leyst sig undan stöðugleikaskattinum við þær aðstæður eða ekki. Það er í raun og veru ekkert sem kallar á að löggjafinn komi nú á síðustu stigum málsins og gefi einhverjar sérstakar viðbótarívilnanir til að forða mönnum undan skattlagningu.

Skattlagningin hafa sumir sagt að sé óviss. Það má vera, við skulum ekki útiloka að það yrðu einhverjar aðfinnslur við hana fyrir dómstólum en þá er til þess að líta að í fyrsta lagi mundum við sjá dómsniðurstöðu í því tiltölulega fljótt því lögbundin er í lögunum um stöðugleikaskattinn flýtimeðferð á ágreiningsmálum sem að honum snúa og sú meðferð er fyrir íslenskum dómstólum. Þetta er íslenskt efnahagsmál, íslenskt úrlausnarefni. Það verður ekki leyst fyrir alþjóðlegum dómstólum eða erlendum dómstólum sem menn höfðu áhyggjur af í fyrri deilumálum í uppgjörinu eftir hrun. Við vitum að við getum treyst íslenskum dómstólum, ekki til að vera hlutdrægir í dómsniðurstöðum sínum heldur einfaldlega fyrir því að fara eftir íslenskum lögum. Þar hefur rík heimild löggjafans til skattlagningar ítrekað verið staðfest. Jafnvel þó að einhverjar aðfinnslur kynnu að vera við útfærslu stöðugleikaskattsins þá er erfitt að sjá fyrir sér að niðurstaðan úr slíkum deilum yrði nokkurn tíma verri en sá samningur sem kröfuhafar hafa nú sjálfir boðið fram. Það virðist þess vegna vera svo að það eina sem gæti gerst á næstu 18 mánuðum væri að þetta dæmi héldi áfram að batna og það er varla hægt að kalla það umtalsverða óvissu að beðið sé í 18 mánuði eftir endanlegum lokum á þessum málum.

Hin spurningin er síðan þessi: Erum við í stakk búin til þess og treystum við því að á allra næstu árum skapist hér í útflutningsstarfsemi okkar 400 milljarða afgangur sem við getum forgangsraðað til þess verkefnis að greiða fyrir þessa samninga? Samkvæmt því sem hefur að minnsta kosti komið fram hjá Sveini Valfells, hagfræðingi hjá Indefence, þá þýða þessi skilyrði og þær ýmsu leiðir sem þarna eru opnaðar fyrir kröfuhafana að þeir fái að fara með 400 milljarða í erlendum gjaldeyri í skiptum fyrir verðlitlar eða verðlausar krónueigur sínar. Við höldum síðan í meginatriðum hlutabréfunum í bönkunum, tæpum 200 milljörðum af bókfærðu verði Íslandsbanka og einhverjum svipuðum tölum í Arion banka en það eru algerlega óvíst hvaða verðmæti felast þar í og hvað út úr því kemur. Eignarhald ríkisins á Íslandsbanka getur auðvitað skapað ýmis vandamál, fyrir nú utan að það sem hefur blasað við hverjum manni lengi að hinir erlendu kröfuhafar sem eru gríðarlega vel tengdir á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa leitað með logandi ljósi í öllum álfum heimsins um margra ára skeið að einhverjum fjárfesti sem væri nægilega áhættusækinn til að hafa áhuga á því að kaupa annaðhvort Íslandsbanka eða Arion banka og það hefur bara einfaldlega enginn slíkur aðili fundist í heiminum. Hvaða verðmæti felast í bönkum sem enginn í heiminum vill kaupa nema innlendir aðilar fyrir krónur er mikið vafamál.

Ég vil hvetja til þess að efnahags- og viðskiptanefnd og þingmenn allir fái aðgang að öllum grunngögnum málsins. Ég tel að skort hafi á að hér lægju fyrir öll gögn málsins með svipuðum hætti og gert var í Icesave-málinu þegar lagðar voru fram gagnamöppur með minnisblöðum og fundargerðum, greinargerðum, bréfaskiptum og öðrum slíkum hlutum. Ég held að það sé eðlileg krafa. Það er ástæða til þess hér að lokum að harma það að ríkisstjórnin skuli á lokametrunum í þessu máli, sem menn hafa allt frá því í forsætisráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur og fram að þessu unnið saman að þvert á flokka, unnið sameiginlega að íslenskum hagsmunum í raun og veru og oftast nær sem einn maður, þar sem menn hafa verið hafðir með í ráðum um hvert skref, taka þann kostinn að reyna að gera þetta að einhvers konar flokkspólitísku máli á lokametrunum og leyna menn upplýsingum og viðhafa ekki það samráð sem menn handsöluðu milli stjórnmálaflokkanna á síðasta kjörtímabili. Það er sannarlega miður og ekki til þess fallið að bæta stjórnmálamenningu okkar.