145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það er alltaf óþægilegt þegar mál eru afgreidd með slíku hraði að fólki finnst það ekki hafa tækifæri til að vera nógu upplýst. Það er sér í lagi óþægilegt þegar um er að ræða aðgerðir sem varða jafn ríka hagsmuni íslensku þjóðarinnar og raun ber vitni. Fjármagnshöftin eru auðvitað eitt af stóru efnahagsvandamálum Íslands og það er mjög mikilvægt að það sé á hreinu hvernig staðið er að því að leysa þau mál, einkum að þar sem ákvarðanir um lög eru teknar, þ.e. á hinu háa Alþingi, upplifi menn sig ekki hlunnfarna um upplýsingar eða að þeir hafi ekki tíma til að skoða þær upplýsingar og hugsa um þær því að það er ekki bara spurning um að lesa frumvarp, nefndarálit og umsagnir þegar maður skoðar svona mál, heldur þarf maður líka að öðlast eins djúpstæðan skilning á tillögunni og umhverfi tillögunnar og mögulegt er. Stundum finnst fólki það vera undanþegið einhverri ákvörðunartöku þegar það er ekki raunin. En það eitt að fólk upplifi það þannig er í sjálfu sér vandamál, einkum þegar kemur að svo stóru máli eins og þessu.

Þetta frumvarp er í sjálfu sér ekki efnismikið. Það er hins vegar mikið í kringum það sem er mjög efnismikið og um leið og maður fer að skoða smáatriðin fara málin fyrst að flækjast. Frumvarpið sjálft er ekki langt, það er bara fjórar greinar með gildistökuákvæði, sem er reyndar í flóknara lagi miðað við venjulega, ef út í það er farið. Ég tek eftir því að breytingartillögur meiri hlutans eru efnismeiri en frumvarpið sjálft. Mér þykir það benda til þess að málið hafi verið unnið í einhverjum flýti og þótt almennt þyki mér ágætt að þingið sjálft komi meira að lagasetningu en venjan er, þá mundi ég vilja að mál væru unnin betur eins og þegar kemur að þessu máli.

Nú geta vel verið málefnalegar ástæður fyrir því að menn flýta sér með þetta mál, og ég tel að svo sé. Það er vegna þess að markaðir með skuldabréf vilja ekki taka við skuldabréfum þar sem þessi skattur er til staðar. En það breytir ekki vandamálinu, þ.e. það breytir ekki því að við afgreiðum málið mjög hratt, það stendur til að klára það á morgun. Ég vona að þingfundur standi ekki alveg til miðnættis þannig að það gefist smáráðrúm til þess að fletta upp upplýsingum um málið. Nú hefur umræðan staðið yfir í allan dag og þá lendir maður alltaf í þeim vanda að þurfa annaðhvort að lesa eða hlusta og missa þá af öðru hvoru. Umræðan hefur oft og tíðum verið mjög upplýsandi og setur oft fókusinn á aðra staði en hið ritaða mál.

Í dag hefur ýmislegt verið rætt í sambandi við fjármagnshöftin í víðum skilningi, þar á meðal hluti eins og vaxtamuninn, sem er að því er mér skilst aftur að verða að vandamáli. Hann var eitt af stóru vandamálunum fyrir hrun, nefnilega að háir vextir á Íslandi og lágir vextir í útlöndum, alla vega í bland við frjálst flæði fjármagns, þýðir að það verður til vítahringur sem verður til þess að menn hafa tilhneigingu til þess að leggja inn peninga hér og taka þá út erlendis og græða á vaxtamuninum. Það hefur ýmisleg vandamál í för með sér og þá ekki síst umframeftirspurn eftir krónu, meiri en það sem maður mundi búast við og geta réttlætt út frá raunverulegu virði krónunnar við dreifingu og skiptingu gæða, vara og þjónustu.

Nú heyrist manni við aftur lenda í þessu vandamáli, og þetta er vandamál sem ég hef ekki einu sinni heyrt neinn stinga upp á raunhæfri lausn á enn sem komið er nema að taka upp annan gjaldmiðil. Því meira sem ég hugsa um það því sannfærðari verð ég um að íslenska krónan sé rót þessara vandamála á Íslandi. Og hvort sem menn tala um evru eða jafnvel það sem sumum þykir mjög vonlaus hugmynd, kanadískan dollara, eru það samt sem áður hugmyndir sem við þurfum að ræða þótt ekki sé nema til að sannfæra fólk um að t.d. kanadískur dollari sé gersamlega vonlaus hugmynd, ef við tökum hann sem dæmi, sem ég var sannfærður um þar til frekar nýlega, en það er svo sem önnur saga.

Þegar kemur að vaxtamuninum er hann að mínu mati til staðar af þeirri ástæðu að hér erum við með þessa blessuðu krónu. Hún hefur margs konar óþægileg áhrif. Eitt af vandamálunum við hana er smæð hagkerfisins, smæð efnahagsins þar sem krónan er notuð raunverulega til annars en spákaupmennsku. En það færir okkur óhjákvæmilega út í umræðu um verðbólgu og vexti Seðlabankans og reyndar vaxtastig almennt. Samkvæmt klassískum hagfræðikenningum eins og ég skil þær er hugmyndin með háum vöxtum oft sú að slá á neyslu, slá á ofhitnun hagkerfisins.

Í hagkerfi þar sem um er að ræða stóran gjaldmiðil og margt fólk, mikla þjónustu, margar vörur og fjölbreyttan efnahag getur vel verið að sú kenning sé góð og rétt, en það er ekki víst að hún standist hér. Reyndar fullyrði ég að hún standist ekki alveg hér. Ástæðan er meðal annars sú að það verður til vaxtamunur, það verður til vítahringur sem þýðir umframeftirspurn eftir krónunni og þar af leiðandi óraunverulega hátt gengi hennar sem þýðir aftur að viðskiptajöfnuðurinn verður neikvæður og erfiðara fyrir íslenskan efnahag að standa undir launahækkunum og því um líku með raunverulegri verðmætasköpun í samfélaginu.

Fyrir hrun minnist ég þess mjög vel að Seðlabankinn vildi halda vöxtunum háum meðal annars vegna hinnar klassísku hagfræðikenningar um að háir vextir eigi að slá á þenslu og hvetja til sparnaðar, draga úr neyslu og fjárfestingum og svoleiðis, en að hluta til til að viðhalda trúverðugleika. Það hugarfar einkenndi 2007-hugsunarháttinn eða fyrirkreppuhugsunarháttinn, að þetta snerist allt um útlitið, hvernig hlutirnir litu út. Það væri meiri spurning um það hvernig jakkafötum menn væru í, hvaða orð þeir notuðu yfir eitthvað sem hefði alveg verið hægt að tjá á mannamáli en þótti ekki nógu töff eða kúl. Það gildir enn. Eftir stendur að hér varð hrun, hér varð trúnaðarbrestur milli yfirvalda og almennings og þaðan kom hin ríka krafa úr samfélaginu um stjórnarskrárbreytingar og ýmislegt annað. En trúnaðarbresturinn varð til að mínu mati vegna þess að hér héldum við uppi efnahagsstjórn með ákveðnum flottræfilshætti, þ.e. með því að einblína á útlitið, einblína á einhvers konar trúverðugleika sem við ætluðum ekki að ná fram með því að fara eftir þeim kenningum sem hentuðu íslenskum efnahag, heldur þeim kenningum sem menn trúa á annars staðar en henta ekki endilega hér, því að íslenskur efnahagur er mjög sérstakur þótt ekki sé í tísku að segja það. Hann er með pínulítinn gjaldmiðil í pínulitlu hagkerfi. Ég þori að fullyrða við aragrúa af stjórnmálamönnum að þeir skilji ekki hugmyndina og forsendurnar á bak við þær kenningar sem þeir beita við hagstjórn. Ef þeir skilja hana er það akademískur skilningur sem tekur ekkert tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem hér eru.

Í kjölfarið á þessu lendum við alltaf í því að vera með einhvers konar leiðindalausnir, ég kann ekki kurteislegra orð yfir það en skítamix, eins og það er stundum kallað, á borð við verðtryggingu, fjármagnshöft og því um líkt. Það hefur einkennt íslenskan efnahag alveg frá upphafi, eftir því sem ég best veit. Verðbólga hefur alltaf verið vandamál hér. Það hefur alltaf verið vandamál að við getum ekki haft frjálst flæði fjármagns og algerlega frjálsan markað með sömu afleiðingum og kannski væri tilfellið ef þetta væri milljónaþjóð eða tugmilljónaþjóð, ég tala nú ekki um það. Helstu hagfræðikenningar heimsins og þær sem yfir höfuð eru rökréttar stóla alltaf á að til staðar sé markaður sem gæddur er ákveðnum kostum, eins og samkeppni, nokkuð sem Íslendingum hefur aldrei tekist að gera með neinu almennilegu móti í nokkrum einasta iðnaði nema kannski í sjoppum og þess háttar. Hér er ofboðslega mikil fákeppni, ofboðslega mikil spilling í kjölfarið á því, ég meina ekki spilling í þeim skilningi að menn séu óheiðarlegir heldur einfaldlega vegna þess að þjóðin er mjög fámenn, fólk þekkist og getur ekkert að því gert að þekkjast. Af því leiðir að við þurfum að vera sérstaklega varkár þegar kemur að spillingu og við eigum ekki að líta á smæð þjóðarinnar sem afsökun fyrir einhverjum tengslum heldur þvert á móti sem sönnun á því að óeðlileg tengsl séu meginreglan hérlendis frekar en undantekningin. Það er nokkuð sem við þurfum að horfast í augu við sem fámenn þjóð og taka á gagnvart okkur sjálfum af heilindum.

Ég segi oft við menn að ég geti alveg fundið frábæran forritara og frábæran öryggissérfræðing í tölvumálum. Það er líklega vinur minn. Ég hef líklega drukkið með honum bjór einu sinni eða tvisvar, líklega. Það er bara vegna þess að þetta er lítið land og það er ekki það margt fólk til að velja úr. Það þýðir auðvitað að maður er alltaf á einhvern hátt tengdur fólki hérna. Það er alla vega mjög hætt við því. En nóg um það.

Hvað varðar þetta frumvarp verð ég að viðurkenna að ég hef ekki náð alveg nógu djúpstæðum skilningi á öllum þáttum þess til þess að ég treysti mér að greiða atkvæði með því í heild. Mér líst vel á það sem ég skil af breytingartillögum meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Ég skil markmiðið og ég tel það í meginatriðum vera málefnalegt en er þó eftir umræðu dagsins aðeins farinn að efast um að það sé hlutverk þingsins að koma til móts við þarfir aðila sem eru í tímaþröng. Að því sögðu þykir mér mjög mikilvægt að sýna fram á að farið sé í þessar aðgerðir af heilindum. Eins og menn hafa sagt hér og með réttu er Alþingi þó ekki skuldbundið til að takast á við vandamál kröfuhafa sem leiða af því að þeir samþykki nauðasamninga eða fari nauðasamningaleiðina. En hins vegar held ég ekki að það sé neitt að því heldur, að því gefnu að málefnalegar aðstæður séu á bak við það og það skemmi ekki fyrir ferlinu, því að markmiðið er að losa um fjármagnshöftin. Markmiðið er ekki að afla tekna fyrir ríkið. Það er ekki markmiðið og við eigum ekki að líta á það sem markmið. Ég hef miklar áhyggjur af því að ef menn líta á það sem markmið komi að því að menn vilji fara að ráðstafa þessu fé væntanlega í næstu kosningabaráttu og fara að lofa aragrúa af fólki ókeypis peningum með það fyrir augum að kaupa atkvæði. Ég kalla það að kaupa atkvæði vegna þess að það er ekkert annað en að kaupa atkvæði. Það er óþolandi og fólk á ekki að láta bjóða sér það ef út í það er farið, en það er önnur saga.

Burt séð frá því sé ég ekki enn sem komið er neitt að þessum tillögum í sjálfu sér. Vissulega hef ég efasemdir. Ég er ekki sannfærður um að það sé gott mál en eftir umræðu dagsins í dag sé ég alla vega ekki að þetta sé skaðlegt þannig að ég hallast meira að því að greiða atkvæði með frumvarpinu en á móti því. Ég sé enga ástæðu til að greiða atkvæði á móti því. Hugsanlega mundi ég sitja hjá vegna þess að ég er ekki nógu sannfærður um að jáið sé rétt ákvörðun. Ég hallast að því og mig langar að hallast að því. Mig langar að það sé rétt leið, ég vona að það sé rétt leið.

Það sem hefur verið gagnrýnt í kringum þetta mál er að farið hefur verið um víðan völl en ekki síst það að menn upplifa að þeir séu ekki nógu vel upplýstir eða hafi tíma til að skoða málið nógu vel. Það er alveg lögmætt vandamál og ber að hlusta á slíkt. En það eru ekki í sjálfu sér efnisleg vandamál við frumvarpið sem slíkt eða þá breytingartillögur meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar.

Ég kemst ekki hjá því að nefna eina breytingu sérstaklega og það er sú fyrsta sem hv. nefnd leggur til, þ.e. að undanþága frá skatti á vöxtum og skuldabréfum sé einungis gefin af skuldabréfum sem gefin eru út í tengslum við efndir nauðasamnings. Ef maður les upprunalega textann í frumvarpinu sér maður strax hvað nefndin hefur verið að spá. Hún hefur verið að reyna að niðurnjörva þetta þannig að þetta væru bara skuldabréf í tengslum við efndir nauðasamninga vegna losunar fjármagnshafta.

Ég sá þá breytingartillögu frá nefndinni og er að sjálfsögðu hlynntur henni og greiði atkvæði með henni, enda er hún nauðsynleg að mínu mati, en ég kemst ekki hjá því að nefna að mér finnst það hálfklaufalegt að nefndin þurfi að laga það í frumvarpinu. Mér finnst það benda til þess að menn hafi verið að gera þetta í ákveðnum flýti. Mér finnst eins og þetta sé eitthvað sem menn hefðu átt að sjá þegar þeir voru að semja frumvarpið og ég held að þeir hefðu gert það ef þeir hefðu talið sig hafa nægan tíma til að skoða málið til enda. En að því sögðu er það í sjálfu sér ágætt að Alþingi sjálft taki meiri þátt í lagasetningu landsins. Það er ekki vandamálið. En mér þykja óþægilegar vísbendingarnar um mikinn málshraða og að hlutirnir séu gerðir í svo miklum flýti í stóru og mikilvægu máli að menn þurfi að sitja hjá við atkvæðagreiðslu vegna þess að þeir telji sig ekki hafa haft nægan tíma eða jafnvel haft aðgang að nógu miklum gögnum til að taka upplýsta ákvörðun. Alveg burt séð frá því hverjum það er að kenna eða hvort það eru málefnalegar ástæður fyrir því eða hvað það er, þá er það samt vandamál. Algerlega óháð því hvers vegna það er vandamál, þá er það vandamál, við eigum að taka upplýstar ákvarðanir hérna, sér í lagi þegar kemur að svona málum.

Eins og ég sagði áðan vona ég að þingfundi ljúki fyrir miðnætti í kvöld svo það gefist einhver tími á þessum degi til að fara aftur yfir nefndarálit og umsagnir í ljósi umræðnanna sem átt hafa sér stað í dag, en auðvitað mundi ég vilja hafa meiri tíma til þess ef til atkvæðagreiðslu kemur á morgun, þá verður afskaplega lítill tími til að nota þá umræðu sem átti sér stað hér í dag til að melta málið enn betur og reyna að komast að upplýstri niðurstöðu.

Það er eitt í viðbót sem mig langar að nefna sem oft hefur verið sagt í dag, það eru umkvartanir yfir því að þetta séu ekki jafn gildar leiðir. Ég verð að segja að ég er orðinn hálfringlaður á því hvað menn eiga við nákvæmlega með jafn gildum leiðum, hvort þeir séu að tala um að það fari ekki svo og svo mikill peningur í ríkissjóð eða taki ekki sama tíma. Það gefur augaleið að þetta er sama leiðin, skattaleiðin og framlagsleiðin, og það er ástæða fyrir því. Þess vegna eru þetta tvær leiðir. Það er svolítið óljóst hvað menn eiga við nákvæmlega með því en ég skil ekki alveg hvers vegna menn vilja endilega hafa þetta jafn gildar leiðir. Þetta eru tveir þættir í áætlun til að losa um fjármagnshöft, það er markmiðið. Og ef við lítum bara á það sem markmið þessara aðgerða og lagabreytinga sem hluta af þeim aðgerðum skil ég ekki alveg hvers vegna menn leggja svo mikla áherslu á að þetta séu jafn gildar leiðir. Ég sé ekki alveg að það skipti máli, jafnvel ekki nokkru einasta máli einu sinni, en ef einhverju þá ekki miklu, hvergi nærri jafn miklu og að þetta takist vel. En það skiptir auðvitað öllu máli að það takist vel vegna þess að hér er um að ræða efni sem varðar ekkert minna en hrunið 2008, sem ég tel og vona að hafi breytt Íslandi á einhvern hátt, sér í lagi varðandi það hvernig við hugsum um efnahagsmál og peninga og hlutverk þeirra í okkar litla, yndislega samfélagi.