145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:22]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það til bóta að til sé leið, að sjálfsögðu er ég hlynntur því að taka burt fjármagnshöftin. Ég man ekki til þess að nokkur hafi skýrt það og sagt að þau væru beinlínis góð eða við þyrftum að hafa þau, vissulega ekki í óbreyttri mynd, en svo er hitt að vandamál með krónuna gera að verkum að við þurfum alltaf að hugsa í einhverjum svona leiðindalausnum, ýmist höftum, verðtryggingu eða hvoru tveggja o.s.frv.

Jú, ég er hlynntur markmiðinu og er sammála því að markmiðið er gott. Fjármagnshöft hafa einnig mjög vond áhrif á efnahaginn, þannig að jafnvel ef einhver vond áhrif eru af því að létta höftunum þá eru það einfaldlega ekki vond áhrif vegna þess að vondu áhrifin af höftunum sjálfum eru líka mjög mikil og almennt er þetta líka leiðinleg aðferð, hún heftir frelsi fólks, ekki bara til að versla erlendis heldur hreinlega til að gera eitthvað fyrir utan landsteinana og það er mjög hvimleitt, sér í lagi til lengri tíma.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með bestu leiðina, ég hef engar hugmyndir sem ég mundi þora að kalla bestu leiðina. Fólk hefur hins vegar oft haft miklar efasemdir um þessa leið, ekki bara það hvort fara eigi í skattinn eða framlagið eða hvað, heldur einfaldlega leiðina í heild sinni og haft miklar áhyggjur af tilteknum hættum, að of mikið fjármagn fari út í einu eða eitthvað því um líkt, of mikið eða of lítið fjármagn fari í ríkissjóð eða hvaðeina. En ég lít svo á að við eigum við aðstæður sem eru erfiðar, engin leið er áhættulaus. Við erum alltaf að taka einhverja áhættu og sér í lagi er þess vegna mikilvægt að við tökum sem upplýstastar ákvarðanir, sérstaklega þegar við setjum lög. Það hefur reynst þrautin þyngri af ástæðum sem eru einfaldlega ekki þær hversu hratt þetta gerist heldur líka hvernig þingið virkar og það er í sjálfu sér ekki einstakt vandamál í þessu máli.