145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[20:29]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að reyna að fara yfir þetta mál sem er frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki, þ.e. nauðasamningagerð slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja. Svo langt var það.

Ég er búin að sitja hér í dag og hlusta og reyna að átta mig á þessu máli, hlusta á meiri hluta og minni hluta tala þótt aðallega hafi minni hlutinn tjáð sig. Ég verð að segja að ég sakna viðveru ráðherra í salnum í þessu risavaxna máli sem þeir hafa skreytt sig með á stundum, þar sem háar fjárhæðir eru látnar fjúka út í eterinn og við eigum að búast við því að háar og miklar fjárhæðir skili sér í ríkissjóð vegna þeirra aðgerða sem boðaðar hafa verið. Við munum eftir glærunum sem sýndu 1.200 millj. kr., 800 millj. kr. og 900 og hvað það nú var, stórar tölur sem áttu að koma í ríkissjóð vegna slitabúanna en svo fara þær fjárhæðir minnkandi, ekki ósvipað og gerðist með hið stóra kosningaloforð framsóknarmanna sem minnkaði mjög hratt.

Ég játa það að mér finnst þetta mál afar flókið hvort heldur um er að ræða stöðugleikaframlag eða stöðugleikaskatt og hef miklar efasemdir um að meiri hluti þingmanna sé þess bær að útskýra um hvað málið snýst hér á morgun við afgreiðslu málsins eða hvenær svo sem það kemur til afgreiðslu. Mér finnst það að minnsta kosti áhyggjuefni að ekki skuli fleiri taka þátt í umræðunni eða reyna að setja sig inn í hana vegna þess að þetta er gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir okkur. Ég hef verið hér í allan dag og átt ágætissamræður við félaga mína sem ég tel að hafi töluverða innsýn í málið, bæði hv. þm. Björn Val Gíslason og Steingrím J. Sigfússon sem vita kannski örlítið lengra en nef þeirra nær í þessum málum. Þrátt fyrir það er maður hægt og rólega að reyna að tengja hlutina saman og mér finnst ég eiga langt í land enn þá.

Það er ágætt að reifa hér aðeins álit 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, Katrínar Jakobsdóttur. Hún kemur inn á það sem við höfum gagnrýnt töluvert, þ.e. samráðsleysi og við höfum líka minnt á samráðsnefnd um afnám hafta. Hún hefur lítið fundað og eiginlega verið sett út í kuldann og ekkert höfð með í þessum málum. Ekki þar fyrir að hún tók svo sem ekki virkan þátt í þessum málum heldur var henni stefnt saman í örfá skipti þar sem henni var tilkynnt eitthvað sem hafði jafnvel þegar komið fram annars staðar. Gagnsæið er mjög lítið og eins og hér hefur verið rakið svolítið í dag hefur hinn almenni þingmaður ekki haft mjög ítarleg gögn í sjálfu sér til að lesa eða kynna sér til að geta átt hér samtal og samræðu í svo flóknu máli. Mér finnst það mjög vafasamt, án þess að ég taki afstöðu til stöðugleikaskatts eða stöðugleikaframlags, að fara í gegnum svona flókið mál á svo skömmum tíma og eiga að taka afstöðu til þess án þess að hafa verið með gögn fyrir framan sig nema kannski í sólarhring eða svo.

Í sumar þegar við vorum að greiða atkvæði um frumvarpið sem hér er undir, þá stóðum við vinstri græn að baki því að fara leið stöðugleikaskattsins, töldum það vera tiltölulega einfalt í fyrsta lagi og mjög gagnsætt en vorum og höfum verið skeptískari á stöðugleikaframlagið. Það eru auðvitað kostir og gallar við þetta allt saman eins og hér hefur verið rakið en að mínu viti hefur ekki verið sýnt fram á með beinum hætti að sú leið sem hér er verið að velja sé betri. Það eru hins vegar uppi stórar fullyrðingar og mikill talnaleikur, en menn gefa sér líka að ef skattaleiðin verði farin þá sé málið tapað. Það er í sjálfu sér hvergi neinn rökstuðningur fyrir því, a.m.k. er ekkert í því sem ég hef verið að lesa sem segir að svo verði. Auðvitað verður að segjast eins og er að það er sérstakt þegar málið er kynnt og vekur efasemdir, og ég trúi ekki öðru en að þingmenn bæði meiri hluta og minni hluta séu sammála því, að mínútum eftir að kynning á sér stað skuli vera komin á vef ráðuneytisins drög að nauðasamningum. Svo er reynt að segja við okkur þingmenn að menn hafi ekki átt nokkur samtöl eða samið um nokkurn skapaðan hlut. Eins og hér var rakið í dag má það ekki heita svo að menn hafi rætt eða samið heldur sé þetta lifandi samtal. Það er auðvitað afskaplega ótrúverðugt og hefur orðið til þess að ég er að minnsta kosti skeptískari en ella gagnvart því að hér sé allt uppi á borðum.

Við vöruðum við ákveðnum hlutum sem við teljum að komi hér fram varðandi stöðugleikaskilyrðin og þá ófrávíkjanlegu niðurstöðu sem átti uppfylla eins og með skattinn. Nú er að birtast annar veruleiki þannig að kannski átti sú gagnrýni rétt á sér, ég vil ekki endilega segja sú aðvörun en að minnsta kosti að fólk væri hugsi yfir því hvernig þetta var sett fram. Það hefur átt við rök að styðjast. Hér var fulltrúi Framsóknarflokksins áðan og hann talaði enn þá um afnám hafta. Ég held að fáir tali um afnám hafta, það er verið að tala um losun hafta. Það er líka svolítið talað um að almenningur njóti þess mjög hratt og örugglega en samt hefur ekki verið lögð fram nein áætlun um afnám hafta eða losun þeirra fyrir almenning. Síðan er það sú hlið sem snýr að lífeyrissjóðunum eins og hér hefur verið rakið ítarlega í dag. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna meiri hlutinn horfist ekki í augu við fjárþörf lífeyrissjóðanna og líti ekki á það þannig að þeir séu í rauninni innan hafta enn þá miðað við að fá bara tækifæri til að fjárfesta erlendis fyrir 10 milljarða á hverju ári. Það eru í rauninni ekkert annað en viðvarandi höft til einhvers tíma.

Þegar maður hlustar á fólkið sitt sem hefur setið í efnahags- og viðskiptanefnd og hefur þó fengið þær upplýsingar sem reiddar hafa verið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar og hálfu þeirra aðila sem hafa verið að vinna þetta fyrir hennar hönd þá er ljóst að þær mjög takmarkaðar. Viðhöfð eru varúðarorð og talað um að margt sé ekki útkljáð. Þetta er allt frekar tæknilegt og ég hef ekki beinlínis sett mig inn í tæknilegu umfjöllunina heldur reynt að ná utan um hvað þetta þýðir fyrir almenning og fyrir þjóðarbúið. Maður reynir að ná stóru heildarmyndinni en það hlýtur að vera varhugavert eins og kemur fram í áliti hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að ekki hafi verið lögð fram gögn sem skýra nákvæmlega hvað felst í nauðasamningunum, t.d. hvernig kröfur eða skuldabréfin eru samsett og hvaða mat hefur verið lagt á það hver endurfjármögnunarþörf bankanna verður að einhverjum árum liðnum o.s.frv.

Það eru ekki bara þingmenn sem hafa þessar áhyggjur. Ég man þá daga á síðasta kjörtímabili þegar ég horfði gjarnan á þinghaldið í sjónvarpinu, þá var hópur sem kallar sig Indefence mjög í hávegum hafður af hálfu núverandi ríkisstjórnarflokka og sérstaklega Framsóknarflokksins. Það sem þeir létu frá sér var í hávegum haft og þótti mark á takandi. Nú hafa þessir sömu aðilar, þ.e. þessi hópur, miklar efasemdir um þessa aðferð og hafa lagt fram gögn því til staðfestingar eða sína útreikninga og telja að málið sé óásættanlegt eins og það er lagt fram. Auðvitað hlýtur maður að hugsa um það hvers vegna núna sé ekki mark takandi á þessum hópi sem ég vil nú segja að hafi nánast komið forsætisráðherra inn á þing á síðasta kjörtímabili, varúðarorð hans séu ekki metin nokkurn skapaðan hlut virðist vera.

Indefence hefur meðal annars sagt að kröfuhafar séu að fá afslátt sem þeir eigi ekki rétt á. Þeir gagnrýna ferlið eins og við höfum gert, að það sé ekki opið og gagnsætt og telja líka eins og fleiri að tölulegur þáttur í stöðugleikaframlaginu sé fjær sanni miðað við það hvernig menn reikna sig upp í þá fjárhæð sem þeim hentar. Ætli það sé ekki einfaldast að orða það þannig. Það er eitt af því sem er gagnrýnt mjög og fleiri hafa gert það. Ég vil líka nefna að þegar maður les gögn Seðlabankans eða skýrsluna um uppgjör fallinna fjármálafyrirtækja þá eru tölurnar út um allt og þetta er ekki ósvipað og með fjárlagafrumvarpið, það liggur við að þetta sé sett fram einhvern veginn í þeim tilgangi að rugla mann, að fólk þurfi að leita í þessu til að reyna að raða hlutunum saman og reyna að átta sig á þeim. Ég skil ekki hvers vegna þetta er ekki sett fram með skilmerkilegri hætti.

Menn hafa skoðað glærukynninguna og þetta hefur verið dregið saman hjá Kjarnanum og á Eyjunni og fleiri stöðum, ýmsir aðilar hafa reynt að draga þetta saman og fá út úr þessu heild og ég vil meina að ekki séu allir sem hafa innt þá vinnu af hendi stuðningsaðilar stjórnarandstöðunnar. Ég held og vil trúa því að þetta séu bara óháðir blaðamenn að reyna að draga saman upplýsingar og vera með málefnalega gagnrýni á efnahagsstjórn landsins hverju sinni. Í glærukynningunni á glæru 12 kemur fram að heildarvandi slitabúanna sé í kringum 815 milljarðar. Ríkisstjórnin hélt því hins vegar fram á blaðamannafundinum í síðustu viku að heildarumfang aðgerðanna væri 856 milljarðar. Þá fóru ýmsir að reyna að reikna stöðugleikaframlagið og það hefur komið fram í umræðunni í dag að það sé í kringum 380 milljarðar en sú tala er auðvitað sett saman eins og ég sagði með mjög sérstökum hætti. Mér finnst líka að þjóðin þurfi að átta sig á því að það eru ótrúlega litlir peningar, þ.e. beinharðir peningar sem koma inn. Mér hefur fundist í umræðunni þegar þessar kynningar hafa átt sér stað látið svolítið eins og þetta geti komið allt saman inn í ríkiskassann og niðurgreiðsla skulda hefjist bara um leið og frumvarpið verði samþykkt. En þetta eru örfáar krónur í heildarsamhenginu. Það eru um það bil 3 milljarðar í peningum í þrotabúi Glitnis, því við fáum bankann, það eru 5 milljarðar í þrotabúi Landsbankans því þetta er í samsettum eignum og heildin er þá 8 milljarðar, og hitt er síðan greitt með ýmsum hætti, fyrst og fremst í eignum sem við sem þjóð þurfum þá að koma í verð.

Ég spyr líka hvort meiri hlutinn hafi ekki velt því fyrir sér eða finnist ekki óeðlilegt að bankarnir, bæði Íslandsbanki og Arion banki, séu metnir á Q-hlutfalli 1 í staðinn fyrir 0,7 eða 0,8 eða eitthvað annað sem kannski gæti talist raunhæfara. Þetta miðast allt við það að þetta fáist, að við getum selt á bókfærðu verði, en af hverju eigum við að geta selt þetta á hærra verði en aðrir? Það er líka talað um að ef við gefum okkur að hlutfallið sé t.d. 0,6 en ekki 1 þá lækki upphæðin strax um 74 milljarða. Síðan eru það þeir liðir sem eru settir inn í heildarfjárhæðina sem við fengjum hvort sem er burt séð frá þessum aðgerðum hér. Það er auðvitað mjög sérstakt að dregnir séu inn liðir eins og rekstrarkostnaður slitastjórnanna sem hljóðar upp á 46 milljarða eða svo, endurheimtur af eignasafninu 81 milljarður, nýi Landsbankinn, gamla Landsbankabréfið, það eru 149 milljarðar. Allt hefði þetta innheimst burt séð frá því hvort þessi leið væri farin eða ekki en er samt dregið inn í þessa tölu. Þegar maður sér slíkt er það ekki til þess að gera málið meira traustvekjandi. Mér finnst því ekki hafa verið svarað beinlínis hér af hálfu meiri hlutans hvort hann sé þessum greiningum sammála, að það sé verið að draga inn fjárhæðir sem hefðu fengist greiddar hvort eð er, óháð þessu frumvarpi og hvort þeir telji að verið sé að setja hlutina fram með ógagnsæjum hætti, a.m.k. fyrir hinn almenna borgara því það er ekki nóg að einhverjir tíu, fimmtán manns skilji þetta hér innan húss, það er æskilegra að fleiri geri það í svo risavöxnu máli.

Ég hefði viljað að við hefðum fengið lengri tíma til að lesa þetta þó ekki væri nema til þess að geta hreinlega áttað okkur betur á þessu, fengið fleiri til að koma að þessu, til að sannfæra fólk áður en það greiddi atkvæði sitt, það tæki afstöðu með eða móti með einhverri vissu um hvað er hér undir. Mér finnst það ekki liggja fyrir núna þegar málið er sett svona fram. Ég vona svo sannarlega að nefndin gefi sér tíma til að skoða þetta í staðinn fyrir að þröngva þessu í gegn og sjái til þess að þetta verði sett fram með sómasamlegum hætti þannig að fólk almennt þurfi ekki að geta í eyðurnar eða láta blaðamenn vinna vinnuna fyrir ríkisstjórnina vegna þess að hún treystir sér ekki til að setja þetta fram með þeim hætti sem skynsamlegt er og fólk almennt skilur.