145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég heyrði sagt í ræðu í dag að það skipti í raun og veru ekki máli hvert virðið væri á eigninni sem þrotabú Glitnis ætlar að afhenda okkur, þ.e. Íslandsbanka. Það var einhver þingmaður sem sagði í dag að það skipti ekki höfuðmáli hvert það væri. Þá gæti maður spurt: Mundi það skipta máli ef þetta væri framlag í peningum, hvort það væru 185 milljarðar eða 85? Það skiptir víst máli, ekki satt? Auðvitað verðum við að innleysa þessar eignir og búa til peninga úr þeim. Það er beinlínis kveðið á um það í skýrslu Seðlabankans um þetta mál. Andvirði eignanna er það sem skiptir máli sem stöðugleikaframlag, ekki eignirnar eða mat á þeim heldur andvirði þeirra, hvað við fáum fyrir þær, nákvæmlega. Það eru miklar efasemdir uppi um að hægt sé að fá það andvirði til dæmis fyrir þessa eign, Íslandsbanka, sem eigendur hennar, þ.e. þrotabúin, eru tilbúnir til að afhenda okkur hana á og íslenska ríkið virðist vera tilbúið til að taka hana á, 185 milljarða. Ég ætla að leyfa mér að efast um að það andvirði fáist.

Varðandi aðrar eignir hef ég ekki hugmynd um hvers virði þær eru vegna þess að ég veit ekki hverjar þær eru. Næstum því 100 milljarðar kr. í eignum og kröfum eru algjörlega óskilgreindir. Við höfum ekki hugmynd um hvaða eignir það eru. Þetta eru 100 milljarðar kr., tæplega, 80 og eitthvað milljarðar kr., sem eru í ótilgreindum eignum og kröfum sem við vitum ekki hverjar eru. Við vitum þar af leiðandi ekki hvers virði þær eru. Þá er nú aðeins búið að hleypa loftinu úr blöðrunni þegar það liggur algjörlega fyrir að framlag þrotabús Glitnis með Íslandsbanka er ekki þess virði sem það er sagt vera og við höfum ekki hugmynd um eignirnar eða hvers virði þær eru.