145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Umræðurnar í dag um þetta frumvarp hafa að mínu mati verið afskaplega góðar og að mörgu leyti upplýsandi. Frumvarpið er, eins og hv. framsögumaður nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar sagði fyrr í dag, lagatæknilegt plagg sem gerir kröfuhöfum kleift að velja þessa leið og fara í nauðasamninga. Mér sýnist nokkuð til í því hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að með frumvarpinu sé verið að klæðskerasníða íslenskan rétt að þörfum kröfuhafanna. Þó að ég segi að umræðurnar fyrir þingmann sem ekki situr í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hafi verið mjög upplýsandi þá sitja eftir margar ósvaraðar spurningar. Ég get ekki tekið afstöðu til þessa frumvarps nema að fá svör við þeim eða nánari umræðu. Ég óska eftir því að framsögumaður nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar komi í lok umræðunnar og geri að minnsta kosti tilraun til þess að svara einhverjum af þeim spurningum sem ég ber fram.

Ein þeirra er þessi: Af hverju voru óháðir aðilar ekki fengnir til þess að meta virði bankanna? Þeir eru settir í kynningu á nafnvirði. Er það raunhæft mat á virði þeirra? Getum við verið viss um það?

Í öðru lagi. Með þeirri leið sem talað er um hér er verið að skjóta hluta málsins inn í framtíðina og það veldur því að lífeyrissjóðir komast ekki út til að fjárfesta erlendis nema fyrir um 10 milljarða á ári næstu sjö árin, hugsanlega, og kannski í lengri tíma. Hvernig verður þeim komið fyrir í íslensku hagkerfi á meðan? Hvaða áhrif hefur fyrirferð þeirra í litlu hagkerfi okkar á efnahag til dæmis íslenskra heimila meðan á biðinni stendur? Svo í beinu framhaldi af þessu: Hvenær komast lífeyrissjóðir, almenn íslensk fyrirtæki og almenningur úr höftum? Það er afar mikilvægt að fá svör við þessu því að þarna leynast undir alls konar efnahagslegir þættir, og félagslegir reyndar líka, sem geta valdið okkur búsifjum.

Í þriðja lagi. Lítið samráð virðist hafa verið í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Óvissa og gagnsæi er of mikið, það er margrætt hér í dag, og það veldur tortryggni að fulltrúar þingflokka hafi ekki fengið að fylgjast með hinu svokallaða lifandi samtali á milli Seðlabanka, fjármálaráðuneytisins og kröfuhafanna. Hvað fór fram á samningafundum við hrægammasjóðina, svo notað sé tungutak framsóknarmanna frá síðasta kjörtímabili? Til hvers af því sem fram kom var til dæmis ekki tekið tillit í þessu frumvarpi og af hverju? Við vitum ekkert hvað þarna var á ferðinni. Oft er í umsögnum og kynningum vitnað til þess að að mati kröfuhafa, að mati félaga o.s.frv. komi hitt og þetta fram, sem sennilega hefur þá komið fram á skapandi samráðsfundum sem fulltrúar þingflokka hafa ekki fengið að fylgjast með.

Í fjórða lagi. Hvernig munu kröfuhafarnir koma út úr samkomulaginu? Við höfum ekki grænan grun um það.

Í fimmta lagi. Er það rétt að íslenska ríkið sé að gefa kröfuhöfunum 450 milljarða afslátt frá skattlagningu? Það er rúmlega tíu sinnum meira en Icesave hefði kostað okkur með samningum sem framsóknarmenn börðust hatrammlega gegn. Þetta virðist mönnum falla í geð þó að allar þessar spurningar standi út af.

Í sjötta lagi. Er stöðugleikaframlagsleiðin örugglega öruggari en skattaleiðin? Ég get ekki séð það. Það eru svo margir óvissuþættir uppi, bæði meðan á ferlinu stendur en ekki síst að því loknu.

Í sjöunda lagi. Hvers vegna telja ráðamenn nauðsynlegt að beita skapandi stærðfræði þegar þeir vilja sannfæra okkur um að skattaleiðin og stöðugleikaframlagsleiðin séu sambærilegar og leggja við upphæðir sem alltaf hefðu fengist hvort sem er? Vilhjálmur Þorsteinsson nefnir þessar reikningskúnstir í pistli sínum á Eyjunni „athyglisverða stærðfræði“ og hún er það svo sannarlega. Svona kúnstir ýta undir tortryggni, stjórnvöld leggja sig ekki fram við að ná sátt í máli sem á ekki að vera pólitískt, heldur ættum við sannarlega öll að sameinast um að leysa þetta mikla vandamál sem varðar hagsmuni þjóðarinnar.

Svo að lokum í áttunda lagi. Indefence-hópurinn telur að vandinn leysist ekki með þeirri leið sem hér er talað um og að eftir verði óleystur vandi sem muni valda okkur búsifjum. Ég vil fá að vita rökin fyrir því að þeir fari með rangt mál áður en við göngum til atkvæða um þetta frumvarp.

Virðulegi forseti. Nú hef ég aðeins nefnt nokkrar spurningar sem brenna á mér eftir umræðu dagsins og mér finnst nauðsynlegt að fá svör við áður en gengið verður til atkvæða. Ég satt að segja kvíði því ef greiða á atkvæði um þetta frumvarp á morgun án þess að þeim spurningum hafi verið svarað með skýrum hætti. Nú má vel vera að til séu svör við þeim og þá vil ég fá þau fram áður en við göngum til atkvæða um frumvarpið