145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir þær spurningar sem hv. þingmaður varpaði fram áðan. Þetta eru spurningar sem hafa í allan dag brunnið á vörum margra þingmanna sem hafa af einlægni tekið þátt í þessari umræðu. Það ber að undirstrika að þetta er eina umræðan sem við fáum á þinginu um þetta stóra mál sem lýst hefur verið bæði af stjórn og stjórnarandstöðu sem einu stærsta efnahagsmáli sem rekið hefur á fjörur lýðveldisins. Ég taldi að hæstv. ráðherrar, sem mér skildist að hefðu lofað að vera viðstaddir umræðuna, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, yrðu það og mundu eftir föngum svara þeim spurningum sem beint hefur verið til ríkisstjórnarinnar vegna margra óvissuþátta í gegnum umræðu dagsins. Þeir hafa ekki sést, ráku rétt inn sín fögru nef hér einhvern tíma um miðjan dag en síðan hefur ekki meira til þeirra spurst. Ég tek undir að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem eigum að fara að taka afstöðu til einhvers stærsta máls sem við höfum staðið frammi fyrir að þessum lykilspurningum verði svarað.

Ég ætla að svara einni spurningu. Hv. þingmaður beindi meðal annars þeirri spurningu til framsögumanns málsins: Hvað fá kröfuhafar út úr þessu öllu saman? Það er kannski erfitt að greina það nákvæmlega í tölur. En ég ætla samt að upplýsa hv. þingmann um að hér fyrr í sumar þegar fyrstu fregnir bárust af því að kröfuhafar hefðu fengið að fara þessa afsláttarleið skrifaði einn helsti fréttahaukur landsins, Þorbjörn Þórðarson, sá sem hvað helst hefur fylgst með þessu máli, grein í markaðshluta Fréttablaðsins. Þar lýsti hann viðbrögðum kröfuhafa með þeim orðum þegar þeir fregnuðu af þessari leið: Ofsakæti. Og fréttamaðurinn Þorbjörn Þórðarson leyfði sér að spyrja: Hvað veldur þessari ofsakæti? (Forseti hringir.) Er það mögulegt að ríkisstjórnin hafi samið af sér? En þetta voru viðbrögð kröfuhafanna, hv. þingmaður, við niðurstöðu ríkisstjórnarinnar.