145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:13]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það eru einmitt svona atriði sem valda manni tortryggni og ýfa upp hárin á manni, þegar fara á með þetta stóra mál með slíku hraði í gegnum þingið. Og það er rétt, þetta er eina umræðan sem við þingmenn fáum um málið. Við veltum hér upp spurningum en við fáum ekki við þeim svör vegna þess að eins og hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson benti á hafa ráðherrarnir, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, lítið látið sjá sig hér í dag. Þeir eru ekki hér við lok umræðunnar til að grípa spurningarnar og svara þeim. Við beinum auðvitað spurningum okkar til framsögumanns nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar og það er kannski ósanngjarnt að gera það. En hv. þingmaður er hér í salnum en hæstv. ráðherrar ekki, sem hafa þó verið á lifandi samtalsfundum með kröfuhöfunum og þekkja því málin betur og undirstöður þess. Ég veit ekki hvernig í ósköpunum er hægt að krefja þingmenn um að greiða atkvæði eftir þessa stuttu umræðu í morgun. Ég mun ekki treysta mér til að taka afstöðu til þessa máls. Það er ekki fullbúið, það er ekki fullrætt. Það eru of margar spurningar sem enn er ósvarað, það eru of margir milljarðar undir af fjármunum þjóðarinnar.