145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef áður lýst skoðun minni hér í dag. Ég þarf svo sem ekki að halda langar ræður til að endurtaka hana. Mér finnst það niðurlægjandi fyrir Alþingi Íslendinga að þurfa að koma saman til þess að klæðskerasníða enn frekari lausnir fyrir kröfuhafa til þess að þeir geti notið hinnar merku afsláttarleiðar hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem færir þeim, hvað sem menn segja, 450 milljarða frá 39% stöðugleikaskatti. Mér finnst það ekki vera hlutverk Alþingis að gera það. Það er það sem er að gerast hér í þremur efnum; við erum hér að hjálpa stórum kröfuhöfum að snúa niður litla kröfuhafa, við erum að hjálpa öllum kröfuhöfum með því að gefa þeim tímafrest til að geta smokrað sér inn í gegnum þessa leið, fyrir utan það að við erum að bregða sérstökum hlífðarskildi fyrir það sem ég hef leyft mér að kalla Tortóla-liðið. Það er nú önnur saga.

Jafnvel þótt talað sé um að þetta sé bara tæknilegt úrlausnarefni er verið að ryðja málinu í gegn, en á því hvílir þó allur ferillinn, allt stóra málið líka, og það er gert á nokkrum dögum. Hvað hafa margir fundir verið haldnir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál síðustu daga? Kannski þrír, kannski fjórir. Við önnur sem ekki sitjum þar höfum ekki haft aðgang að nokkrum upplýsingum um málið öðrum en þeim sem komið hafa hér yfir ræðustól Alþingis í dag og í nefndarálitum. Auk þeirrar spurningar sem hv. þingmaður nefndi hér áðan hafa vaknað mjög alvarlegar efasemdir í umræðunum í dag. Ég rifja upp það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á í mjög fínni ræðu í dag. Hann benti á að búið væri að raska tímaröðinni, þ.e. að ekki væri búið að smala út aflandskrónunum með útboðum eins og átti að gera, sem eðli máls samkvæmt þarf að leiða til lykta áður en menn fara í slitabúin til þess að allt sé sem tryggast. 300 milljarðar þar, skotið inn í framtíðina, og síðan það fé sem fest er í lengingum og lánum og öðru sem Indefence hefur bent á. Það vekur alvarlegar efasemdir og það er eðlilegt að þetta mál sé skoðað til þrautar og miklu betur. (Forseti hringir.) Þess vegna finnst mér rétt að hv. framsögumaður reyni að svara þeim spurningum sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir bar fram áðan og ég vorkenni henni ekkert að ganga þau svipugöng ef hæstv. ráðherrar nenna ekki að vera hér og standa undir skyldum sínum og svara þingmönnum.