145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt eins og hv. þingmaður sagði hér áðan að menn glöddust yfir að hafa heyrt eitthvað, okkur var sagt eitthvað. Okkur var kynnt ákveðin leið og sagt að stöðugleikaskattur yrði lagður á. Þetta var nokkuð sem við heyrðum eins og hverjir aðrir. Það var ekkert samráð. Það var ekkert samtal á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það var ekkert samtal í samfélaginu um þær leiðir sem ætti að fara heldur gerðist þetta allt á bak við luktar dyr. Það er algjörlega ófyrirgefanlegt í svona stóru máli.

Ég skil ekki hvers vegna stjórnvöld taka þessa afstöðu í svo mikilvægu máli sem á í sjálfu sér að vera þverpólitískt, þ.e. að leysa úr hruninu, leysa úr uppgjöri þrotabúanna, afnema höft o.s.frv. Þetta á ekki að vera eftir skýrum flokkslínum. Þetta er dæmi um mál sem á að leysa í samvinnu milli flokka þvert á stjórnmálaskoðanir. Ég skil ekki út af hverju menn vinna ekki með þeim hætti í þessu máli. Það býður upp á tortryggni. Það býður upp á leynd eins og ég fór yfir áðan. Það býður upp á að þeir sem þurfa að taka ákvarðanir um mál, eins og þingmenn, gera það á grundvelli lélegra gagna, á grundvelli lítilla upplýsinga, á grundvelli upplýsinga sem eru matreiddar ofan í þingmenn með glærusýningum, fréttatilkynningum og yfirlýsingum en ekki umræðu. Ákvarðanir sem byggjast á lélegum upplýsingum og lélegum gögnum eru vondar ákvarðanir. Þær verða nánast alltaf vondar ef við byggjum þær ekki á góðum gögnum og eftir okkar bestu vitund. Það sýnist mér vera að gerast í þessu máli.

Víst er það (Forseti hringir.) kaldhæðni örlaganna að Framsóknarflokkurinn sjálfur hafi leitt þetta (Forseti hringir.) mál inn í þing og glatt kröfuhafa eins og heyra mátti á greiningu og (Forseti hringir.) skrifum Þórðar Snæs Júlíussonar í Kjarnanum.