145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þær upplýsingar sem hv. þingmaður hefur hér upp úr Kjarnanum skýra þau viðbrögð sem annar miðill, þ.e. Fréttablaðið, upplýsti að hefðu verið viðbrögð kröfuhafanna þegar stöðugleikaframlagsleiðin kom fram. Ofsakæti var einkunnin sem þeim viðbrögðum var gefin, vitaskuld þegar málum er komið svo fyrir að beinlínis tryggt er af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að veðmálið á Ísland gekk fullkomlega upp hjá kröfuhöfum. Eins og hv. þingmaður lýsti yfir þá mokgræddu allir sem komu að því að reyna að notfæra sér uppkaup á kröfum.

Ég tek svo undir með hv. þingmanni að það er auðvitað með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki hafa reynt að hafa stjórnarandstöðuna meira með í ráðum. Við freistuðum þess á síðasta kjörtímabili með ágætum árangri. Við héldum a.m.k. stjórnarandstöðunni upplýstri. Núna var að vísu sett á laggir svokölluð samráðsnefnd, en hún var sérstök að því marki að þar var aldrei neitt sérstakt samráð.

Þegar menn fóru af stað í seinni hluta leiðangursins varð ég mjög ánægður. Ég gladdist yfir þeirri merku ræðu, að mér þótti, sem hæstv. forsætisráðherra flutti á flokksþingi Framsóknarflokksins. Ástæðan var sú að í tíð síðustu ríkisstjórnar lagði ríkisstjórnin upp í samráði við AGS með þríþætta nálgun. Hún byggðist á því að nudda niður jöklabréfunum, aflandskrónunum, í gegnum útboð og í öðru lagi á því að gera upp slitabúin þannig að krónueignin færðist öll í íslenskar hendur. Síðan átti að hleypa þeim kviku krónum sem eftir væru út í gegnum mikinn útskatt. Þetta var planið sem hæstv. forsætisráðherra lagði upp með og (Forseti hringir.) þess vegna voru menn glaðir. Síðan kemur þessi stöðugleikaframlagsleið sem er allt önnur. Þingið (Forseti hringir.) hefur aldrei fengið að ræða þá leið til þrautar. Ég er viss um að það hefði kannski verið hægt að koma viti í hana eða meira viti en þess var ekki freistað.