145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[21:48]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það sem hefur skort í þessu máli er hið augljósa samráð sem hefði átt að hafa um það. Það hefðu verið augljós klókindi í sjálfu sér af hálfu stjórnarliða að hafa stjórnarandstöðu með sér í að leysa svo erfitt mál, nema stjórnarflokkarnir hafi verið að reyna að leysa það með einhverjum sérstökum hætti sem hagnist þeim best. Lausnin sem liggur á borðinu, þ.e. lausn þeirra stjórnmálaflokka sem eru þekktir fyrir að deila út eignum annarra, er nærri því 400 milljarðar kr. í eignum sem þeir verða að koma í verð. Það er skilyrði fyrir því að þetta gagnist.

Það segir í yfirlýsingu Seðlabankans í kjölfar síðustu stóru glærukynningar, með leyfi forseta:

„Skuldir ríkissjóðs munu lækka enda á að ráðstafa andvirði stöðugleikaframlagsins í að greiða niður skuldir …“ — enda á að ráðstafa andvirði stöðugleikafrumvarpsins.

Skuldir verða ekki lækkaðar með því að leggja inn Íslandsbanka heldur verður að leysa út peninga og greiða með peningum. Skuldir verða ekkert lækkaðar. Skuldir verða ekki borgaðar með því að henda kröfum eða ótilgreindum eignum í einhverja. Nei, það þarf peninga til þess. Þess vegna verður að ráðstafa andvirði eignanna til að lækka skuldir. Þá gleðjast kannski fleiri en hrægammarnir. Þá gleðjast kannski stjórnmálamenn sem eru vanir því að ráðstafa eignum annarra til tiltekins þröngs hóps. Við getum nánast nafngreint þá hópa, við vitum kennitölur þeirra sem eru líklegir til að kaupa þær eignir sem verða nú til ráðstöfunar.

Kröfuhafar fara út að mati Indefence. Indefence-hópurinn segir, með leyfi forseta, að „við álagningu stöðugleikaskatts muni erlendir (Forseti hringir.) kröfuhafar fá að taka yfir 500 milljarða kr. úr íslensku hagkerfi á næstu árum“. Þeir fá 500 milljarða kr. að lágmarki (Forseti hringir.) út úr þessu bixi. Það er verið að bæta (Forseti hringir.) í það með lagafrumvarpinu sem við erum að fjalla um hér í kvöld.