145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:18]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er þetta með að vinna saman að málum, ekki bara tala um það, heldur að framkvæma það í verki. Þar hefur ríkisstjórnin algjörlega brugðist í þessu stóra máli, því miður. Vegna þess að ekki er hægt að segja annað en að stjórnarandstaðan hafi gefið málinu gott orð hefði mátt fylgja því eftir og vinna það áfram saman. Síðan hefur það bara algjörlega brugðist. Auðvitað á að taka inn í svona stórt og mikið þjóðarhagsmunamál verkalýðshreyfinguna og fleiri aðila og lífeyrissjóðakerfið. Allt þetta er undir, fyrirtækin í landinu, almenningur. Það er ekkert smámál á ferðinni. En þeir kjósa að loka sig inni með það og vísa, finnst mér, alltaf á Seðlabankann. Ef þetta gengur vel og gengur upp mun ríkisstjórnin taka við hrósinu. Ef það gengur illa, sem maður vonar auðvitað að geri ekki, mun Seðlabankinn sitja í súpunni, hann bæri ábyrgð á þessu af því að hann hefði lagt upp að þetta stöðugleikaframlag sem er verið að tala um gæti mætt á greiðslujöfnuði.

Ég spyr: Hvar eru fjölmiðlar í þessu máli? Eru allir sofandi einhverjum þyrnirósarsvefni í málinu öllu saman? Og Indefence, hvar logar á kyndlunum hjá þeim núna? Þannig má maður spyrja almennt út í þessi mál. Verkalýðshreyfingin? Þetta er ekkert smáhagsmunamál um framtíð lífeyrissjóðanna og fjárfestingarþörf þeirra til framtíðar.

Ég spyr: Hvar eru allir þeir aðilar til að standa vaktina? Þetta mál á ekki að renna svona í gegn í rólegheitunum eins og við séum að samþykkja eitthvað léttvægt (Forseti hringir.) heldur er þetta mál sem skiptir þjóðina mjög miklu máli til langrar framtíðar hvernig til tekst.