145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég verð að taka undir með síðasta ræðumanni um þetta mál að því leyti til að hér er Alþingi væntanlega í umræðum um þessi mál að sleppa endanlega af því hendi sinni. Þetta er síðasta umræða Alþingis um þetta risavaxna mál. Þetta frumvarp snýr að vísu aðallega efnislega að tæknilegum þáttum, en það er samt hluti af grundvelli þeirrar miklu efnahagsaðgerðar sem hæstv. fjármálaráðherra lét jafnvel hafa eftir sér að kynni að vera stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar. Tók ég ekki rétt eftir þar? Samt er það þannig að hún er ekki merkilegri í augum hæstv. ráðherra, forustumanna ríkisstjórnarinnar, en svo að þeir láta ekki sjá sig hér í umræðum um málið. En það er í alvöru þannig, herra forseti, að við erum í þessari umræðu, og þá kannski einhverri stuttri umræðu um þetta mál, að sleppa endanlega hendinni af þessu máli og restin er úr okkar höndum. Er það þá skrýtið að Alþingi vilji taka sér aðeins tíma til að ræða það? Og væri það ekki við hæfi að hæstv. ráðherrar væru hér til að svara spurningum um þetta mál? Jú, ég hefði nú haldið það. Hæstv. fjármálaráðherra hefur því miður ekkert blandað sér í málið, hann sást hér aðeins á hlaupum í þinghúsinu um miðjan dag í dag og hvarf svo, sem og gufaði hæstv. forsætisráðherra mjög snarlega upp eftir að hafa aðeins rekið hérna inn nefið og hefur síðan teflt fram fótgönguliðum sínum í andsvör.

Fara má ýmsar leiðir til að nálgast umræðu um þetta mál. Ég er að leika mér að því í huganum að fara í smáæfingu og hafa hlutverkaskipti og ímynda mér að þetta mál væri nú í höndum ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, við bærum fram þennan pakka á Alþingi og vinir okkar í Framsóknarflokknum væru í stjórnarandstöðu. Hvernig er líklegt að orðræðan yrði hjá þeim miðað við málflutning þeirra á síðasta kjörtímabili? Er hugsanlegt að talað yrði eitthvað um þjónkun við erlenda kröfuhafa eða hrægammasjóði? Linkind? Mundu menn kannski grípa til myndlíkingarinnar frá skáldinu Einari Kristjánssyni frá Hermundarfelli, sem talaði um þann illvíga sjúkdóm hnjáliðamýktina sem hrjáði suma menn, í öðru samhengi að vísu, þegar kom að afstöðunni til erlends hers? Það er ekki ólíkt.

Auðvitað mætti gera alveg stórkostlegt grín að hlutverki Framsóknarflokksins í þessu máli nú, flokknum sem undir forustu hæstv. forsætisráðherra talaði þannig um erlenda kröfuhafa, uppnefndi þá og talaði á þeim nótum að það kæmi ekki til mála að koma nálægt þeim, það ætti ekki að tala við þá nema þá bara vera með gaddakylfuna á lofti, en „þetta sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann“ stendur í sálmi. Hæstv. forsætisráðherra fer nú fyrir ríkisstjórn sem er að semja við kröfuhafana og sannarlega að veita þeim verulegan afslátt frá þeim fjárskuldbindingum sem fólgnar hefðu verið í því að þeir greiddu fullan stöðugleikaskatt. Hér hafa menn farið ágætlega yfir það í dag og ég held að myndin hafi skýrst, eða ég vona það, af hinu skapandi bókhaldi sem beitt er til þess að blása út umfang þessara stöðugleikaskilyrða eða stöðugleikaframlagaaðgerðar borið saman við skattinn. Það er alveg augljóst að það er gert og ýmislegt talið þeirri aðgerð til tekna sem deila má um.

Það er vissulega rétt og ég tek það fram, virðulegur forseti, að ég hef engan áhuga á því að fara ofan í þá leðjugryfju. Ég vil bara reyna að greina hvort þetta sé nóg og hvort menn hafi skotið undir markið. Ég hef verulegar áhyggjur af því, því miður, að svo hafi verið. Það sem villir mönnum sýn í þeim efnum er að menn gera ekki nægjanlegan greinarmun að mínu mati á þeim hluta vandans sem hreinsaður er út strax í byrjun aðgerðarinnar og hinu sem skutlað er inn í framtíðina, vegna þess að þó að tryggð sé fjármögnun á því til sjö ára, eða hvað það nú er, er það þarna áfram. Það stendur eftir sem kröfur erlendra aðila á íslenska þjóðarbúið, það gerir það þótt lengt hafi verið í því.

Ég á til dæmis ákaflega erfitt með að sætta mig við að það að erlendu kröfuhafarnir eða hin endurskipulögðu félög með útgáfum skuldabréfa gerist fjármögnunaraðilar innlendu bankanna og að það sé fjármögnun til aðeins lengri tíma en lánin sem þeir skulda ríkinu í dag, að með því sé hægt að telja það stöðugleikaframlagsleiðinni sérstaklega til tekna á fullu verði, að það sé jafn gilt 74 milljarða beinum skatttekjum í ríkissjóð. Er verið að reyna að segja okkur það? Það mætti ætla það miðað við hvernig þessu er stillt upp. Það er svolítið áhyggjuefni þegar maður fer að fara betur yfir þetta. Sumt af þessum útgáfum mun bera vexti. Vextir verða væntanlega eftir sem hingað til, og ekki síður hér eftir ef höftunum verður létt að einhverju leyti, undanþegnir öllu slíku og geta farið mánaðarlega úr landi. Til að draga upp þá mynd ætti að nægja að þetta er þá hluti vandans, hluti af stöðu erlendra aðila inni í hagkerfinu sem er hér á beit. Það er stóra áhyggjuefnið.

Kröfuhafarnir fara þá fyrstir út í þeirri tímalínu sem nú liggur fyrir. Mikið hefur verið talað um það og oft notuð hin fræga myndlíking seðlabankastjóra að við höfum bara eitt skot í byssunni. En það eru nú farin að dreifast dálítið úr því höglin ef þetta verður í þessari tímaröð að kröfuhafarnir fari fyrstir út um og upp úr áramótunum, þá á að reyna að fara í það að bjóða upp aflandskrónurnar og enn síðar og í framhaldinu að reyna að setja upp eitthvert plan um það hvernig höftunum verði aflétt af öðrum aðilum.

Ég segi bara, herra forseti: Það er eins gott að ekkert mistakist ef það er rétt að við höfum bara þetta eina skot. Og auðvitað höfum við það. Um leið og fallist er á tillögur eða frumvörp slitabúanna í héraðsdómi eða Hæstarétti er málið búið gagnvart þeim. Þá er auðvitað búið að lofa því fyrir fram að það sé gert á þeim grundvelli að þeir fái undanþágu frá gjaldeyrishöftunum, því að þetta er í eðli sínu umsókn um undanþágu frá gjaldeyrishöftunum til að fara með fjármunina út, hvert einasta hæti sem eftir verður að greiddum þeim stöðugleikaframlögum sem þeir eiga að reiða fram, sem eru í beinum fjárframlögum aðeins 379 milljarðar kr. Og inni í þeirri tölu eru báðir bankarnir í reynd reiknaðir upp í topp.

Það er verulegur munur á því og því umfangi vandans sem greinendur sjálfir, Seðlabankinn og aðrir, hafa sagt að sé til staðar, 800 milljarðar plús/mínus, sem vera búanna með sinn útblásna efnahagsreikning hér í hagkerfinu skapar í heild sinni ef allt er talið. Þess vegna eru menn að reyna að tíunda að mótvægisaðgerðirnar — þegar allt er talið og tínt til, þar á meðal hlutir sem hefðu fallið til hvort sem er, alls konar af öllu tagi, eins og uppgreiðsla lána, rekstrarkostnaður búanna, skattgreiðslur þeirra sem eftir eru, lengingin í Landsbankabréfinu og svo framvegis, komast menn kannski upp í svipaðar upphæðir en ekki með beinum stöðugleikaframlögum. Það er algjörlega augljóst mál.

Ég leyfi mér því að endurtaka og fara áfram yfir efasemdir mínar og áhyggjur í þessu máli, ekki vegna þess að ég vilji ekki að þetta gangi allt saman vel hjá okkur, það vona ég svo sannarlega, en ég segi bara: Það er eins gott að ekkert klikki. Ég verð að segja það frá innstu hjartans rótum að ég vildi í þessu tilviki hafa betri sannfæringu fyrir því að þetta yrði í lagi en ég hef efasemdir, sérstaklega þegar þetta er klofið upp með þessum hætti og allt verður búið og gert með stærsta einstaka þáttinn í þessu, sem er auðvitað það að leysa búin út úr hagkerfinu. Það verður of seint að iðrast eftir dauðann ef illa fer.

Mér sýnist líka að jafnvel þó að þetta gangi eftir og jafnvel þó að það reynist rétt að þessar aðgerðir til samans hlutleysi upplausn búanna, tímabundið a.m.k., þannig að við verðum ekki í greiðslujafnaðarvanda af þeim sökum næstu árin — ég vefengi ekki að svo sé, ekki í öllum aðalatriðum — er ekki nóg að hugsa þannig. Við verðum að hafa sæmilega sannfæringu fyrir framtíðinni, okkur sjálfum, lífeyrissjóðunum okkar og öðru slíku. Lífeyrissjóðir, sem eiga núna yfir 150% af vergri landsframleiðslu í hreina eign, eru í raun óþægilega stórir inni í hagkerfinu nú þegar, eiga að fara að taka við auknu fé ef iðgjöld fara hér í almennu sjóðunum upp í það sama og þau eru í þeim opinberu. Það er nú engin smáinnspýting í lífeyrissjóðina á næstu árum ef iðgjöldin hækka í 15,5%. Hver verður fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna þá innan fárra ára? 200 milljarðar nettó á ári, eitthvað svoleiðis? Hvernig ætlum við að koma því fyrir í hagkerfinu? Framtíðin teiknar til þess að þeir verði með um og yfir 300% af vergri (Forseti hringir.) landsframleiðslu í hreinar eignir til greiðslu lífeyrisþega þegar umfang þeirra verður mest. Og það (Forseti hringir.) er ekkert smáræði, herra forseti, sem þar er undir fyrir íslenska þjóð. Þeirra hlutur er magur í þessum plönum.