145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að minnsta kosti að vona að það komi ekki í ljós strax á næsta ári að við höfum skotið undir markið. Við eigum fram undan afdrifaríkt ár ef menn ætla þá á því ári hvort tveggja að reyna að bjóða upp aflandskrónurnar, snjóhengjuna, upp á 300 milljarða kr. og losa höftin gagnvart öðrum aðilum. Í hve ríkum mæli munu menn treysta sér til að gera það? Hvernig verða greiðslujafnaðarhorfurnar strax þegar næsta ár hefur nokkurn veginn runnið sitt skeið á enda? En það er vissulega rétt að að hluta til munum við sjálfsagt ekki sjá hvernig það kemur út á endanum fyrr en að allmörgum árum liðnum af því að vandinn er að hluta til geymdur.

Aðferðafræðin sem hér var lögð upp er að mörgu leyti mjög skynsamleg, í vissum skilningi valkvæð leið þótt kostirnir séu þvingaðir í báðum tilvikum. Það er annars vegar grimmur skattur eða eitthvað hagstæðari stöðugleikaframlagaleið. Auðvitað er skiljanlegt að hún sé þá eitthvað hagstæðari af því að þá eru menn látnir leita eftir því sjálfir. Þess vegna var kynningin í Hörpu í vor svo yfirgengilega bernsk, því að hver hlaut ekki að sjá í gegnum það að búin hefðu enga ástæðu til þess að fara að bjóða einhver stöðugleikaframlög frekar en að borga skattinn ef þetta var nákvæmlega jafn gilt? Nei, auðvitað liggur það í hlutarins eðli að það var væntanlega í kortunum að þeim byðust eitthvað hagstæðari kjör.

Stóra spurningin er þá auðvitað aftur: Er afslátturinn of mikill? Er verið að gera of vel við þá? Ég hafði fyrir löngu síðan gert mér þá mynd af þessari stöðu að út úr þessu væru aðeins tvær leiðir færar aðrar en einhvers konar þvinguð skattlagning, upptaka, eða þá gjaldeyrishöft um langt árabil. Það voru annars vegar einhvers konar (Forseti hringir.) stöðugleikaframlög af þessu tagi eða viðskipti þar sem allar krónueignir og kröfur búanna af öllu tagi gagnvart innlendum aðilum væru keyptar af þeim á einu bretti á 1 kr. Það hefði líka verið hægt.