145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[22:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Þau viðhorf sem ég hef til málsins hafa komið fram í nokkrum andsvörum í dag og ég ætla ekki að lengja umræðuna um of með því að halda mjög langa ræðu. Mig langar samt aðeins til að undirstrika nokkur atriði. Í fyrstu vil ég óska hæstv. ríkisstjórn farsældar og heilla í því ferðalagi sem hún hefur hafið. Þetta er lokakaflinn í löngu viðreisnarskeiði sem hafið var strax árið 2009 með minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og fram haldið af meirihlutastjórninni sem síðan tók við. Núverandi ríkisstjórn hefur, að því er ég hygg, lagt sig virkilega fram um að reyna að koma þessum málum í sem best horf. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að betra hefði verið að hafa miklu meira samráð en hæstv. ríkisstjórn hefur haft um þetta mál. Ég rifja það sérstaklega upp að reynt var eftir föngum í tíð síðustu ríkisstjórnar að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum, upplýsa hana um það sem var að gerast. Ég held að það hafi þó leitt til þess að undir lokin tókst sæmileg sátt um með hvaða hætti ætti að leika lokakviðuna í þeirri miklu sinfóníu sem þá var spiluð allt kjörtímabilið. Það var í þeim anda sem núverandi hæstv. ríkisstjórn, að minnsta kosti í upphafi, gekk nokkuð keik til samráðs og bauð í fyrstu upp á samráð. Það var í kjölfar þess að við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfðum rétt fram sáttarhönd. Höfðum sagt að það væri mikilvægt að um þennan lokakafla, sem væri aðdragandinn að afnámi gjaldeyrishafta, yrði sem breiðust samstaða. Ég hef alltaf barið bumbur samstöðunnar varðandi það mál.

Afnám gjaldeyrishafta og lögin sem því tengjast eru líkast til jafn mikilvæg ef ekki mikilvægari neyðarlögunum sem hér voru á sínum tíma sett mjög farsællega. Þessi tvenn lög tel ég þau afdrifaríkustu sem Alþingi hefur samþykkt í lýðveldissögunni. Þess vegna segi ég að samstaðan skipti máli. Æskilegt hefði verið að hæstv. ríkisstjórn hefði þess vegna stigið frekari skref til að hafa stjórnarandstöðuna með í ráðum og þiggja ráð hennar, en líka stuðning. Mér finnst það sérstaklega slæmt núna á hinum allra síðustu vikum og dögum hvað samráðið hefur verið lítið. Mér finnst reyndar að hæstv. ríkisstjórn ætli sér, hvað sem tautar og raular og hver sem viðhorf Alþingis væru, að koma málinu í gegn og þá vísa ég til þeirrar yfirlýsingar sem við sáum hjá hæstv. fjármálaráðherra, að hann hygðist staðfesta þá ákvörðun sem Seðlabankinn hafði tekið varðandi tilboð kröfuhafa um nauðasamninga, með öðrum orðum skipti viðhorf Alþingis hann ekki máli.

En það er samt sem áður þannig að gagnrýnar umræður á Alþingi á síðustu vikum sem tengjast þessu máli, sömuleiðis gagnrýnar umræður utan Alþingis, hafa skipt máli. Ég rifja það sérstaklega upp að þegar Seðlabankinn frestaði sínum fræga fundi þar sem átti að upplýsa um stöðu málsins og með hvaða hætti hann ætlaði að leggja til að málið yrði dregið til lykta kom hik á mannskapinn og töluverður tími leið þar til meginniðurstaðan var lögð fram. Hvað gerðist í millitíðinni? Jú, hlustað var á þá gagnrýni sem kom fram í sölum Alþingis og sem kom fram utan Alþingis um að óráðlegt væri að ljúka málinu þannig að þessi stóri og mikilvægi banki, Íslandsbanki, yrði í höndum erlendra aðila.

Upphaflega tillagan var með þeim hætti að ljóst var, eins og bent var á af sumum okkar og líka af Indefence, að það væri í gadda slegið að Íslandsbanki mundi lenda utan landamæra Íslands. Ég hef frá upphafi verið þeirrar skoðunar, líka í tíð síðustu ríkisstjórnar, að farsælast væri áður en gengið yrði í það að ljúka málinu að bankarnir báðir yrðu í höndum íslenskra aðila. Ég var á þeim tíma ekki einn á því máli, það voru líka fjölmargir í ríkisstjórninni, og um það mál mætti kannski vísa til ræðu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra á ársfundi Seðlabankans árið 2013. Þar benti hann í mjög skýru máli á þær hættur sem fælust í því að bankinn yrði til langframa, varanlega, þegar búið væri að ganga frá uppgjörinu við slitabúin og kröfuhafa, í höndum manna sem vildu nota tækifærið til að sleikja innan úr honum og þrautnýta hann. Ég var frá upphafi þeirrar skoðunar að það hefði átt að draga til aðstoðar við ríkið þá sem hafa gjaldeyri í höndum, lífeyrissjóðina sem eiga töluvert af honum, og leyfa þeim sem hinu félagslega sameiginlega kapítali okkar Íslendinga að græða á því.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þetta dæmi, hvernig lokavendingin varð á síðustu metrunum, sýnir það að aðkoma Alþingis og samtaka utan Alþingis og gagnrýnin umræða breytti málinu. Ég er þeirrar skoðunar að mögulegt hefði verið með því að leggja með þeim hætti saman höfuð að ná samstöðu og hugsanlega að breyta málinu þannig að við þyrftum ekki, sum hver að minnsta kosti, að velkjast í vafa um hvort þessi eina kúla sem við höfum í því byssuhlaupi sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur svo listilega teiknað upp hitti í mark. Hættan er sú eins og hér hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum, og kannski allra frekast hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að kúlan hitti undir markið. En eins og ég sagði í andsvari áðan, það syndafall mun koma eftir okkar dag.

Ég er þeirrar skoðunar að ef þær aðgerðir, sem verið er að ráðast í að þessu máli frágengnu í sölum Alþingis, takist ekki þá komi það ekki fram fyrr en í fyrsta lagi eftir 2020–2022, og er ég þá kannski að vísa til þess að fram að þeim tíma höfum við þokkalegar áætlanir. En bak þeim tíma rennum við nokkuð blint í sjóinn. Mér hefur fundist sem viðhorf ágætra þingmanna stjórnarliðsins sem hafa lagt til þessa máls sé dálítið í ætt við það sem stundum hefur verið kallað hið íslenska viðhorf, „þetta reddast“, vegna þess að menn hafa ekki getað svarað þeirri gagnrýni sem hefur komið fram og lýtur að því að verið er bersýnilega að skjóta töluverðum kúf af krónueigninni fram í tímann. Það er auðvitað óttaefni. Það kemur þá hugsanlega að því að þegar þær krónur losna eða þegar einhverjir atburðir verða í íslensku samfélagi sem leiða til þess að á þær vaxa fætur og þær verða kvikari en eru í dag og vilja út verði áhlaup. Þetta er auðvitað það sem við þurfum að horfa til.

Þegar hæstv. forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flutti sína merku ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins, sem mig minnir að hafi verið 9. apríl, þá gladdist ég. Mér fannst sem hæstv. forsætisráðherra væri þar nákvæmlega að fara rétta leið. Sú leið sem hæstv. forsætisráðherra boðaði þá var mjög í anda þeirrar þríþættu nálgunar sem hafði verið mótuð í tíð fyrri ríkisstjórnar af þáverandi fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, og eftirmönnum hans, ásamt seðlabankastjóranum. En sá sem risti út sjókortið var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Vísarnir að því sjókorti sem nú er siglt eftir voru settir fram af AGS svo snemma sem árið 2010, og þessi þríþætta nálgun byggðist á eftirfarandi: Í fyrsta lagi átti að vinna niður þann stabba af aflandskrónum á jöklabréfum sem vegna vaxtamunarviðskipta höfðu streymt inn í íslenskt samfélag og þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við námu samtals 750 milljörðum kr. Þau útboð gengu ekki sérlega vel fyrri partinn, en þegar núverandi ríkisstjórn tók við var búið að nudda þeim niður í 300 milljarða, meira en helminga þær krónur sem voru inni á jöklabréfunum. Þegar núverandi ríkisstjórn lagði fram sitt plan í vor var númer eitt hjá henni að ljúka við þá vinnu. Það átti að smala út þeim íslensku krónum sem voru enn inni í Seðlabankanum á jöklabréfum og koma þeim út úr landinu og það sem eftir yrði átti að læsa inni á lágum eða engum vöxtum til langframa.

Þessu var ég sammála. Það var ástæða fyrir því að þetta átti að gera áður en menn fóru í kafla tvö. Hver var kafli tvö? Hann var sá að vinna niður þær krónueignir sem voru innan slitabúanna og mikilvægt var að taka jöklabréfin og aflandskrónurnar áður og gera það sem hægt var til að hlutleysa þær. Vegna þess að ljóst er að þegar kafla tvö væri lokið væri orðið miklu skemmra í afnám gjaldeyrishafta og það mundi því skapa ákveðinn freistnivanda fyrir eigendur aflandskróna á jöklabréfum til að sitja kyrrir, bíða eftir því í ljósi góðrar hagvaxtarstöðu á Íslandi allt frá 2010 að krónan styrktist og þeir kæmust hjá því, sem var opinbert verkefni og markmið tveggja ríkisstjórna, að sneiða þann stabba niður um 100 milljarða. Það er auðvitað eftir miklu að slægjast þegar slíkur ávinningur blasir við. Nú hefur það hins vegar gerst að útboðin á aflandskrónunum hafa klúðrast. Þau hafa ekki farið fram og þau munu greinilega ekki fara fram fyrr en búið er að ganga frá þeim kafla tvö sem við erum í núna. Sá kafli er mjög keimlíkur því landakorti sem við í fyrri ríkisstjórn drógum upp á því hvernig átti að gera þetta.

Það var kannski tvennt sem var mest áberandi í þeirri sviðsmynd sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri lyfti til dæmis á opinberum fundi sem haldinn var á vegum samtaka sem þá hétu snjóhengjan.is og fólst í því í reynd að taka krónueign slitabúanna og flytja hana yfir í hendur íslenska ríkisins. Partur af því var sömuleiðis sá að bankarnir lentu í íslenskum höndum og síðan mundu Íslendingar hafa af því töluverðan hagnað sem mundi þá standa gegn þeim kostnaði sem af hruninu hófst þegar kæmi að því að selja bankana. Og gjaldeyri, sem þá átti að afla til að greiða fyrir hluta þeirra gagnvart kröfuhöfum og hjálpa þeim til að komast út með sína eign, átti að sækja og vinna í samvinnu við lífeyrissjóðina. Það lá alveg ljóst fyrir að mikill hagnaður yrði af því þegar í fyllingu tímans bankarnir yrðu seldir á markaði. En það var í lagi vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru félagslegt kapítal. Við eigum þá öll og þeir máttu hagnast á því, alveg eins og þeir högnuðust á tilteknum samningum sem þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, stóð fyrir sem bætti stöðu lífeyrissjóðanna sem þá horfðu fram á mikið tap, um 10 milljarða. Enginn andmælti því, því að það er félagslegt kapítal. Við eigum það allt saman. Að þessu leyti tel ég að vegferð núverandi ríkisstjórnar hafi verið prýðileg fram að þessu. Að vísu hefur hún klúðrað fyrsta kaflanum, þ.e. útboðinu, til þess að nudda niður restinni af aflandskrónunum. En markmið hennar varðandi slitabúin voru nákvæmlega sömu og fyrri ríkisstjórnar.

Þriðji kaflinn í þessu ferðalagi var síðan að hleypa út krónum með þeim hætti að lagður yrði á hár útgönguskattur. Það lá alltaf fyrir samkvæmt þeim flöggum sem AGS og Seðlabankinn settu upp á síðasta kjörtímabili að sá útgönguskattur yrði að vera nægilega hár til þess að hann hlutleysti útstreymið miðað við fjármálalegan stöðugleika. Þetta voru útgangspunktarnir. Þess vegna var ég mjög glaður þegar mér fannst hæstv. forsætisráðherra vera að hugsa hlutina nákvæmlega rétt þegar hann kom fram með hugmynd sína um stöðugleikaskatt á flokksþingi Framsóknarflokksins. Ég skildi hann. Ég lét reikna út fyrir mig af hverju hann var 39%. Það var nákvæmlega það sem þurfti til þess að Ísland gæti staðið jafn rétt eftir gagnvart gjaldeyrisforða sínum, gagnvart fjármálalegum stöðugleika inn í framtíðina. Svo ég leyfði mér á þeim degi sem það var kunngert að lýsa því yfir að ég mundi styðja stöðugleikaskattinn.

En Adam var ekki lengi í þeirri Paradís. Ég sat við skjáinn eins og ábyggilega þúsundir Íslendinga þegar bein útsending var úr Hörpu og menn kynntu alla þá aðgerð. Ég sá tölurnar sem brugðið var upp og ég held að ég hafi skoðað hverja einustu slæðu sem þeir tveir ágætu sérfræðingar brugðu upp til að skýra þetta út fyrir landsmönnum. Ég heyrði aldrei orðið stöðugleikaframlag. Ég tók aldrei eftir glæru, sem ég síðar fann þó á netinu, með orðinu stöðugleikaframlag. Það var aldrei nein útskýring á því að til hliðar við stöðugleikaskattinn væri líka búið að hanna aðra leið, leið stöðugleikaframlaga. Valkvæða leið, vissulega jákvætt í sjálfu sér, sem kröfuhafarnir gátu notfært sér. Það var aldrei greint frá því sem okkur hafði að vísu grunað og ég spurt einu sinni einn hæstv. ráðherra um yfir þennan ræðustól hvort í gangi væru leynilegar viðræður við kröfuhafa. Enn í dag hafna menn því að slíkar viðræður hafi átt sér stað. Hæstv. fjármálaráðherra má þó eiga það að hann var svo ærlegur að í framsögu sinni fyrir stöðugleikaskattsfrumvarpinu lét hann koma fram að samtal hefði verið í gangi við fulltrúa kröfuhafa í Lundúnum. Eins og menn muna kom hann fljúgandi að utan beint inn á fundinn í Hörpu frá Lundúnum. Síðar kom í ljós að þar var hann auðvitað í samræðum við kröfuhafa. Í dag heitir þetta í munni hæstv. fjármálaráðherra lifandi samtal. En það var auðvitað ekkert annað en samningaviðræður.

Það frumvarp sem er tilefni þessarar umræðu og við heyjum nú á hinu háa Alþingi staðfestir það. Þar er verið að koma fram með breytingar vegna þess að kröfuhafarnir hafa haft aðstöðu í gegnum hið lifandi samtal til að koma á framfæri óskum gagnvart ríkisstjórninni um frekari breytingar þeim til hægðarauka. Ég hef sagt það í dag að ég er á móti því að hið háa Alþingi sé á þann hátt að klæðskerasníða íslenska löggjöf fyrir þá sérstaklega. Af hverju leyfi ég mér þann munað að vera á móti því? Vegna þess að ég trúi og treysti ríkisstjórninni. Hún hefur sagt við mig mörgum sinnum að leiðirnar tvær séu jafn gildar. Hv. þm. Sigríður Andersen og mig minnir líka hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson töluðu um það eins og auðvitað væru þessar leiðir ekki jafn gildar. En ef ríkisstjórnin segir mér það, alþingismanni með töluverða reynslu að baki en sem hefur enga aðstöðu til að kafa ofan í málið vegna þess að ég hef engin gögn til þess, verð ég að trúa henni.

Ég spurði einn hæstv. ráðherra sem er aðili að málinu hvort menn óttuðust að fara leið stöðugleikaskattsins vegna þess að hann mundi ekki standast lögfræðilega. Ástæðan fyrir því var sú að í upphafi máls efaðist ég um það sjálfur. Fullyrt var af ríkisstjórninni að stöðugleikaskatturinn stæðist fyllilega og enginn ótti væri af hálfu ríkisstjórnarinnar gagnvart því að einhverjir dómstólar mundu tæta hann í sundur. Þá tel ég að full rök séu til þess að trúa ríkisstjórninni þegar hún segir að þetta séu jafn gildar leiðir. Nú hefur það hins vegar komið fram að bornar eru brigður á það af hálfu einstakra þingmanna, fyrrverandi fjármálaráðherra, hóps manna, Indefence, sem eru þekktir að því að hafa getu og hæfni til að skoða þessi mál út í hörgul. Bornar eru brigður á það að leiðin, sem upp úr þessari sérstöku hjáleið sem sleppir auðvitað kröfuhöfunum með fast að því 450 miljörðum minna en þeir þyrftu að borga samkvæmt stöðugleikaskattinum, dugi.

Mér nægir það til að staldra við þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir og Indefence velta því upp hvort verið geti að skotið geigi eða fari undir markið. Ég tel að menn eigi að taka mark á því þegar tveir fyrrverandi fjármálaráðherrar sem hafa með mjög málefnalegum hætti tekið þátt í umræðunni velta þessu upp. Ég tel að þegar safn sérfræðinga á ýmsum sviðum, eins og Indefence, setur fram sömu athugasemdir og efasemdir eigi menn að skoða málið.

Herra forseti. Um leið og ég óska ríkisstjórninni farsældar og vona að þetta gangi upp hjá henni, þá hefur hún eigi að síður meinað mér það sem á að vera minn réttur sem fulltrúi á löggjafarsamkundunni, að geta skoðað málið út í hörgul. Ég verð að taka hana trúanlega. (Forseti hringir.) Ég verð að taka Seðlabankann trúanlegan. Hann hefur breytt afstöðu sinni í einu veigamiklu atriði á lokametrum málsins. Ég leyfi mér eins og Tómas að segja: Ég þarf að leggja höndina í sárið til að trúa. En ég fæ það ekki. Þess vegna mun ég ekki geta stutt málið, en ég ætla ekki að leggjast gegn því.