145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki svar á reiðum höndum. Mér er hið flókna sálarlíf hæstv. ráðherra gersamlega framandi og mér finnst það sérstaklega með ólíkindum að hæstv. forsætisráðherra skuli hafa valið þessa leið. Hann sagði jú á síðasta kjörtímabili að það stappaði landráðum næst þegar menn vildu fara samningaleið.

Þá rifja ég það upp fyrir hv. þm. Birni Vali Gíslasyni að þegar við vorum að tala fyrir samningaleiðinni við Icesave 2 leiddi það til mikils uppnáms á Alþingi. Hæstv. forsætisráðherra tók upp sína stríðsexi og sveiflaði henni ótt og títt alveg þangað til í síðasta mánuði, að segja má, yfir höfðum kröfuhafa, ætlaði að fara að þeim með mikilli hörku. En Icesave 2, þegar upp var staðið, kostaði 45 milljarða. Á móti því kemur hins vegar að ef sú leið hefði verið farin þá hefði það leitt til þess að gjaldeyrishöftum hefði verið aflétt tveimur til þremur árum fyrr. Hvert ár undir gjaldeyrishöftum kostar íslensk fyrirtæki 80 milljarða samkvæmt Viðskiptaráði þannig að samningaleiðin, ef hún hefði verið farin við Icesave 2, hefði sparað íslenska samfélaginu næstum því 200 milljarða íslenskra króna.

Nú hins vegar er það sá maður sem skók öxum að öllum sem vildu fara samningaleiðina á síðasta kjörtímabili sem tekur þátt í því að veita kröfuhöfum mesta skattafslátt Íslandssögunnar og hann er tíu sinnum hærri en kostnaðurinn var við Icesave 2. Mér er hulið að skýra sinnaskipti hæstv. forsætisráðherra og þess vegna verð ég að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki skýrt það.