145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert vafamál að það voru harðir árekstrar á millum formanna stjórnarflokkanna varðandi afgreiðslu þessa máls. Hæstv. forsætisráðherra barðist fyrir því að farin yrði svokölluð gjaldþrotaleið og þess vegna stimpaðist hann mjög gegn því sem hæstv. fjármálaráðherra vildi, hann vildi alltaf fara samningaleiðina.

Þá er rétt að rifja það hér upp að í fyrstu ræðunni sem hæstv. fjármálaráðherra flutti á Alþingi í sínu nýja embætti sagði hann að fjármagnshöftin væru eins og blikkandi varúðarskilti yfir Íslandi. Þetta var í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann sagði jafnframt að stigin yrðu stór skref í átt að því að afnema fjármagnshöftin innan sex mánaða. Þeir sex mánuðir eru nú að verða að þremur árum og enn er ekki búið að afnema gjaldeyrishöftin. Ég tel ekkert efamál að það verða ekki stigin nein marktæk skref í því að afnema þau fyrr en síðla árs 2017. Það verður hugsanlega komin ný ríkisstjórn þegar það skref verður loksins stigið, eitthvað sem máli skiptir.

Hæstv. ríkisstjórn hefur aldrei fengist til að meta, og við höfum ekki gert það, hvað gjaldeyrishöftin kosta þjóðina. En Viðskiptaráð hefur gert það og í febrúar 2013 birti Viðskiptaráð upplýsingar sem komu í fjölmiðlum, meðal annars á Eyjunni, og þaðan hef ég þessa tölu. Þar mat Viðskiptaráð það svo að hvert ár undir fjármagnshöftum kostaði íslensk fyrirtæki 80 milljarða. Ég tel að slagsmálin og ágreiningurinn millum formanna stjórnarflokkanna hafi að minnsta kosti tafið afnám gjaldeyrishafta um 80 milljarða. Það er það sem þessi átök hafa kostað. Það var hæstv. forsætisráðherra sem lagðist harkalegast gegn Icesave 2 samningaleiðinni þá. Þegar allt er talið leggur þetta sig sennilega á fast að því 400 milljarða sem þetta hefur hugsanlega kostað íslensku þjóðina.