145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að mér finnst þessi málflutningur í hæsta máta furðulegur. Í sumar laut einmitt umræðan um þessi mál öll að stöðugleikaskilyrðunum. Það var ágreiningur um það og kom fram ábending um það og ádeila, m.a. af hálfu stjórnarandstöðunnar, og réttmæt að mínu mati að einhverju leyti, að stöðugleikaskilyrðunum væri ekki nægilega lýst á þeim tíma. Það er alveg útilokað að halda því fram í dag að þetta hafi ekki verið rætt í sumar. Hvers vegna samþykkti Alþingi sérstaklega flókið lagafrumvarp um breytingu á ýmsum ákvæðum er lúta að nauðasamningum ef ekki til þess að búa í haginn fyrir þann möguleika að farin yrði nauðasamningsleið í stað stöðugleikaskatts? Menn töluðu um það jafnvel opinskátt að stöðugleikaskatturinn ætti að vera sú svipa sem slitastjórnirnar svo sannarlega þurftu á að halda til að ljúka áralangri og bráðum áratugalangri vinnu við slitabúin. Það þurfti að setja þessa svipu stöðugleikaskatts á það til að menn lykju þessari vinnu og kæmu sér út með það fé sem þeir eiga hérna og eiga mögulega kost á að fara með, að gættum þeim skilyrðum sem Seðlabankinn hefur sett og ríkisstjórnin og vonandi þingheimur allur um stöðugleika. Ég árétta að það er fráleitt að það komi bara fram á einni glæru, menn geta flett upp þessum glærum frá 8. júní. Öll kynningin fjallar um stöðugleikaframlagið og þessar tvær leiðir sem kröfuhöfum býðst að fara til að fara út með eigur sínar. Ég frábið mér þennan málflutning. Úr því að menn eru að kalla eftir málefnalegri umræðu tel ég rétt að halda þessu til haga.