145. löggjafarþing — 27. fundur,  3. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[23:19]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Það er makalaust að heyra þingmann stjórnarliða og framsögumann nefndarálits meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar túlka stöðugleikaskattinn sem var boðaður í Hörpu í sumar sem einhvers konar svipu eða hugsanlega refsingu ef kröfuhafar slitabúa gömlu bankanna yrðu ekki við tilmælum stjórnvalda um að greiða stöðugleikaskatt. Þetta fannst mér makalaus ummæli. Í fyrsta lagi felst í orðunum nánast að það séu hálfgerðir kjánar sem reka þrotabú bankanna og það hafi þurft að setja fram einhverja hótun og ef þeir mundu ekki hlýða stjórnvöldum yrði lagður á þá skattur. Í öðru lagi stenst þetta ekki skoðun vegna þess, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir hér áðan, að á kynningunni í sumar var eingöngu kynntur skattur, eingöngu rætt um stöðugleikaskatt. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að talsmenn og formenn stjórnarflokkanna ræddu um stöðugleikaskatt og að hann mundi skila 850 milljörðum kr. Það var stóra glæran sem var sýnd og um það hverfðist allt málið í sumar. Það kom reyndar í ljós þegar betur var að gáð og rennt yfir allar þessar 80 eða 100 glærur, hvað þær voru margar, að það var búið að semja um annað. Það var búið að semja um stöðugleikaframlag. Það stóð aldrei til að fara einhverja skattaleið. Það var engin hótun fólgin í því að fara skattaleið enda kemur fram í gögnum málsins í dag af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og Seðlabankans að þeirra mat var að það væri vond leið vegna þess að það mundi tefja málið, tefja fyrir úrlausn málsins og því að hægt væri að aflétta höftum. Þess vegna stóð aldrei til af þeirra hálfu síðastliðið sumar að leggja skatt á þrotabúin heldur var þetta sviðsetning. Þetta var sýning sérstaklega hönnuð og gerð að frumkvæði Framsóknarflokksins sem fannst erfitt að kyngja því að hafa ekki fengið að nota haglabyssurnar og gaddakylfurnar við að berja á hrægömmunum sem menn voru þó búnir að tala um árum saman að þyrfti að gera. Þegar á hólminn var komið sögðu þeir þjóðinni ósatt í beinni útsendingu úr Hörpu með því að fullyrða að til stæði að leggja á stöðugleikaskatt sem ætti að skila ríkissjóði 850 milljörðum kr. Þegar betur var að gáð og rýnt betur í gögnin þá var það ekki rétt. Eins og hv. þingmaður sagði hér áðan var engin alvara á bak við þetta heldur var þetta fyrst og fremst einhver hótun, einhver svipa sem var sett á loft. Það var stefnt að allt öðru. Það var aldrei neitt að marka þetta.

Það er alvarlegt þegar formenn stjórnarflokkanna koma fram og segja eitt, halda einhverju á lofti, lofa þjóðinni því að nú séu málin að leysast farsællega en meina það ekki. Það staðfesti hv. þm. Sigríður Andersen hér áðan sömuleiðis, að þetta hefði verið sýning fyrir kjánana sem reka slitabúin svo að þeir yrðu hræddir við stjórnvöld sem hótuðu kylfum og haglabyssum ef þeir inntu ekki af hendi stöðugleikaframlag, annars fengju þeir á sig skatt.

Þetta sannar sig í frumvarpinu sem við erum að ræða hér í kvöld, sem felur í sér frestun á málinu. Það er verið að laga málið enn frekar dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð að þörfum kröfuhafa sem vilja gera upp búin sín með því að inna af hendi svokallað stöðugleikaframlag með því að láta okkur hafa góssið og nokkrar krónur í veskið að auki og við eigum síðan að koma því í verð, innleysa eignirnar, innleysa kröfurnar og koma þeim frá okkur svo að við getum fengið peninga til að greiða niður skuldir og jafnað okkur á því að þeir séu farnir með eigur sínar úr höftunum.

Þetta var sum sé allt saman plat með stöðugleikaskattinn. Það stóð aldrei til. Hitt var alltaf leiðin (Forseti hringir.) sem átti að fara þó að það hefði ekki verið sagt.