145. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[00:00]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður lýsir hér yfir að hún hafi ekki alveg fullan skilning á málinu sem hún er þó að hvetja okkur til að samþykkja. Hún færir hér rök fyrir því og hvetur okkur til að samþykkja mál sem hún segist ekki hafa fullan skilning á. Allt í fína með það. Ég fyrirgef henni það.

Hún sagði hér áðan að við værum að fjalla um vanda upp á 1 þús. milljarða sem eigi að leysa með 379 milljörðum. Munurinn þarna er ríflega 600 milljarðar. Getur hv. þingmaður leyst úr skilningsleysi mínu á því hvernig leysa á 1 þús. milljarða vandamál með 379 milljörðum?

Hv. þingmaður sagði sömuleiðis að stöðugleikaskattur gæti hugsanlega stangast á við stjórnarskrá og þyrfti dómsmál til að greiða úr því. Er hv. þingmaður þar með að segja að til að losna undan dómsmálum séu menn tilbúnir til að fórna 600 milljörðum kr.? Það kosti ríflega 600 milljarða kr. að sleppa undan dómsmálum, eins og hér kom fram í kvöld?

Varðandi kröfuhafana. Víst kemur okkur það við hvað þeir labba með (Forseti hringir.) út úr landinu, því að það var þetta lið sem olli skaðanum. Það var þetta lið sem olli tjóninu á landinu og (Forseti hringir.) heimilunum í landinu og fyrirtækjunum. (Forseti hringir.) Víst kemur okkur það við hvað þeir fá út úr dílnum.