145. löggjafarþing — 27. fundur,  4. nóv. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[00:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nú útúrsnúningur hjá hv. þingmanni sem tók til máls í þrítugasta sinn hér í kvöld, að ég held. Ég sagði auðvitað ekki að ég hefði ekki fullan skilning á málinu sem hér er til umfjöllunar. Ég get alveg fullyrt, og hv. þingmaður getur huggað sig við það, að ég hef fullan skilning á því máli sem ég hafði framsögu um hér úr efnahags- og viðskiptanefnd, þ.e. þeim lagatæknilegu atriðum sem lúta að nauðasamningum og stöðugleikaskatti. Hv. þingmaður veit vel að skilningsleysi það sem bar á góma hjá öðrum hv. þingmönnum og ég tók undir lýtur að stöðugleikaskilyrðunum í heild, einhverjum þáttum þess.

Hv. þingmaður nefndi dómsmálið. Það er auðvitað ekki þannig að menn hræðist dómsmálið sem slíkt. Menn hræðast það hins vegar að sitja hér með fjármagnshöft, gjaldeyrishöft, í einhver ár í viðbót. Það er það sem við viljum losna við (Forseti hringir.) að lenda í, enda viljum við losna við höftin strax á næsta ári. Það er það sem við (Forseti hringir.) leggjum áherslu á.