145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Rekstrarfélag Stjórnarráðsins fékk beiðni frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um eyðingu pósthólfa 11 fyrrverandi starfsmanna, þar með talið hjá Jónínu S. Lárusdóttur, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í viðskiptaráðuneytinu. Guðmundur H. Kjærnested, framkvæmdastjóri rekstrarfélagsins, staðfesti í tölvupósti til Morgunblaðsins að hvorki upprunalegu pósthólfin né afrit þeirra væru til. Jónína var ráðuneytisstjóri árin 2007–2009. Þetta finnst mér gríðarlega alvarlegt mál því að fram kemur að tölvupóstum Jónínu hafi verið eytt þegar sérstakur saksóknari kannaði hvort lögskilið samþykki ráðherra væri fyrir gjaldeyrisreglum Seðlabankans. Ég verð að spyrja: Hvernig stendur á því að í stjórnsýslunni sé hægt að fjarlægja gögn á þennan hátt án þess að hægt sé að bregðast við því?

Í ljósi þessa vil ég hvetja þingmenn til að kynna sér þetta því að lítið hefur verið um þetta fjallað og að við tryggjum að umboðsmaður Alþingis fái fjármuni á fjárlögum til að geta farið í frumkvæðisrannsókn um málið. Þetta er grafalvarlegt. Þetta er á þeim tíma sem hrunið er og í eftirmálum þess. Ekki er hægt að vita hvað gerist í ráðuneytinu þegar tölvupósthólf ráðuneytisstjórans hverfur.

Ég vil því skora á þingmenn að tryggja að umboðsmaður Alþingis fái þá fjármuni sem hann þarf til að geta rækt skyldu sína. Ég tel jafnframt að þetta mál hljóti að eiga erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég mun kalla eftir því að fá einhver svör, því að þó svo að komin séu til ný lög þá virðast þau ekki hafa verið innleidd enn þá, sem er líka alvarlegt mál.


Efnisorð er vísa í ræðuna