145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að greina Alþingi frá því að í október, í næstsíðustu viku, var þing Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf. Það var meðal annars helgað flóttamönnum. Við ræddum um málefni þeirra og hvernig við gætum með einum eða öðrum hætti mætt þeim af meiri mannúð. Sú sem hér stendur, sem er formaður Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins, flutti ræðu þar að lútandi.

Það sem var hins vegar merkilegra á þessu þingi var að í þriðju nefndinni, sem fjallar um mannréttindi, var Birgitta Jónsdóttir frumkvöðull og framsögumaður að ályktun ásamt þingmanni frá Suður-Kóreu. Þeirri ályktun fylgdi hv. þingmaður eftir af stakri prýði og mikilli einurð og vann í henni hér heima sem og Aðalheiður Ámundadóttir sem var með henni í Genf. Þær svöruðu ábendingum sem komu og lagfærðu ályktunina þannig að hún var ekki bara samþykkt í þriðju nefndinni og þaðan út heldur fékk hún líka samþykkt á hinu stóra sviði Alþjóðaþingmannasambandsins í Genf. Það mun vera, virðulegur forseti, í fyrsta sinn sem íslenskur þingmaður kemur ályktun áleiðis og fær hana samþykkta jafnt í nefnd og á hinu stóra sviði í Genf. Þessi ályktun Birgittu Jónsdóttur og þingmannsins frá Suður-Kóreu fjallaði um hennar stóra og mikla áhugamál, sem eru mannréttindi og friðhelgi einkalífs í stafrænum heimi jafnt á við raunheima.

Ég tel ástæðu, virðulegur forseti, að upplýsa þingið um þetta um leið og ég vil enn og aftur óska hv. þm. Birgittu Jónsdóttur til hamingju með þessa ályktun og framlag hennar fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins á þessum fundi í Genf.


Efnisorð er vísa í ræðuna