145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum líklega flest slegin yfir Kastljósi í gærkvöldi þar sem fjallað var um mál tveggja kvenna með þroskahömlun sem beittar voru kynferðislegu ofbeldi. Erlendar rannsóknir sýna að fatlaðar konur eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en aðrar konur og nýjar íslenskar rannsóknir sýna að það sama á við hér á landi. Það er nefnilega til heilmikil þekking á því ofbeldi sem fatlaðar konur eru beittar og við sem löggjafarvald hljótum að taka mið af því í vinnu okkar.

Mig langar í þessu samhengi að benda á skýrslu sem unnin var fyrir velferðarráðuneytið árið 2013 og nýja skýrslu, Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum. Í viðauka með skýrslunni er að finna tillögur að aðgerðum, m.a. að stefnumörkun stjórnvalda. Mig langar að tæpa á nokkrum þessara tillagna:

Aukið fjármagn til sérhæfðra stuðningsúrræða, þar sem fatlaðar konur eiga oft erfitt með að nýta sér þann stuðning sem ófatlaðir þolendur ofbeldis eiga kost á. Það á ekki hvað síst við um fatlaðar konur sem búa á strjálbýlum svæðum. Þetta er kannski nokkuð sem hv. fjárlaganefnd ætti að skoða. Aukin kynfræðsla. Stjórnvöld verða að tryggja kynfræðslu fyrir fatlað fólk í skólum. Þá þarf að semja ný lög eða bæta eldri löggjöf í því skyni að auðvelda fötluðum konum þátttöku í málarekstri, efla þekkingu lögfræðinga, lögreglu og dómara á sviði fötlunar og ofbeldis gegn fötluðum konum. Allt eru þetta verkefni fyrir hæstv. menntamálaráðherra og hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Síðast en ekki síst er bent á að tryggja þarf að löggjöf gegn mismunun taki í meira mæli á því að tryggja rétt fatlaðra kvenna.

Hv. alþingismenn. Það er fjölmargt sem bæta þarf í þessum málaflokki og það er okkar að sjá til þess að það verði gert, það er til nóg af fræðilegum efniviði sem leiðbeinir okkur í þeirri vinnu.


Efnisorð er vísa í ræðuna