145. löggjafarþing — 28. fundur,  4. nóv. 2015.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að fagna þverfaglegu samráði á landsvísu til að bæta samvinnu og verklag í málum sem tengjast ofbeldi og afleiðingum þess í samfélaginu. Samstarfið hófst formlega með sérstökum fundi í síðustu viku. Samstarfið byggir á yfirlýsingu sem félags- og húsnæðismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra undirrituðu í desember í fyrra. Þar lýsa ráðherrarnir einhug um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, að auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsóknir ofbeldismála.

Samræðunni á landsvísu er ætlað að ná til félagsþjónustu, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu og ákæruvalds. Í yfirlýsingunni er tilgreint að samstarfið muni beinast að aðgerðum til að sporna við ofbeldi gegn börnum, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi og ofbeldi gagnvart fötluðu fólki og öðrum berskjölduðum hópum. Þá tekur starfið líka til hatursfullrar orðræðu sem hvetur til ofbeldis eða annarrar refsiverðrar háttsemi sem er lítillækkandi eða ógnandi í garð einstaklinga eða hópa.

Á síðustu árum höfum við vissulega komist áfram í umræðunni um ofbeldi eða frá því að ræða það ekki, eiga ekki orð yfir það og jafnvel að trúa því að ofbeldi eigi sér aldrei stað í nágrenni okkar yfir í að ræða hinar ólíklegustu birtingarmyndir bæði í fjölmiðlum og við eldhúsborðið heima. En staðreyndin er sú að við eigum enn þá langt í land í vinnunni gegn ofbeldi, samanber umfjöllun Kastljóss þessa viku og ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur áðan.

Um leið og ég fagna samráðinu sem nú er hafið tel ég mjög mikilvægt að löggjafinn fylgist með framvindu vinnunnar og fái upplýsingar um hugsanlega hnökra á löggjöfinni sem kunna að koma (Forseti hringir.) í ljós samhliða markvissri vinnu á breiðum grunni gegn ofbeldi.


Efnisorð er vísa í ræðuna